*

Heilsa 15. maí 2018

Myndir: IceMedico stækkar HAp+ úrvalið

HAp+ vörulína íslenska frumkvöðlafyrirtækisins IceMedico stækkar með tveimur nýjum bragðtegundum á lausn við munnþurrki.

Fyrirtækið IceMedico kynnti nýja vörulínu HAp+ á veitingastaðnum Bergsson í Íslenska Sjávarklasanum í fyrradag, en um er að ræða frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir mola til að örva munnvatnsframleiðslu. Fjöldi gesta mætti í kynningarhófið þar sem kynnt var nýtt útlit á HAp+ molunum auk þess sem tvær nýjar bragðtegundir hafa bæst í línuna sem telur nú alls sex bragðtegundir.

Dr. Þorbjörg Jensdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri IceMedico segir HAp+ vera nýsköpun sem teljist til næstu kynslóðar af sælgæti, enda brúi þeir bilið á milli matvælaiðnaðar og tannlæknisfræðinnar. „HAp+ molarnir voru upprunalega þróaðir fyrir fólk sem þjást af munnþurrki," segir dr. Þorbjörg.

„Molarnir örva munnvatnsframleiðslu tuttugufalt og eru þrisvar sinnum virkari en að tyggja tyggigúmmí. Molarnir voru upphaflega þróaðir sem lausn við munnþurrksvandamáli en eru nú að ryðja sér til rúms sem lífstílsvara, enda sykurlausir, kalkbættir, hitaeiningasnauðir og tannvænir.“

Þorbjörg fékk Íslensku frumkvöðlaverðlaunin árið 2016 frá Stjórnvísi fyrir stofnun og uppbyggingu IceMedico og HAp+ vörumerkins. HAp+ er afrakstur mikilla rannsókna Þorbjargar í doktorsnámi hennar í Danmörku þar sem hún stundaði rannsóknir í munnlyflækningum með áherslu á efna- og lífeðlisfræði munns sem og þá glerungseyðingu tanna.

Þorbjörg Jensdóttir, Finnbogi Jónsson og Helga Viðarsdóttir.

Stikkorð: HAp+  • Þorbjörg Jensdóttir  • IceMedico  • munnþurrkur