*

Menning & listir 16. apríl 2019

Myndir: Notre Dame kirkjan í París

850 ára gömul kirkja stóð í ljósum logum í alla nótt en í morgunsárið tókst að ráða niðurlögum eldsins.

Eftir níu klukkustunda baráttu tókst slökkviliði Parísarborgar að ráða niðurlögum eldsins í Notre Dame dómkirkjunni á áttunda tímanum í morgun. Hófst eldurinn um 18:50 á frönskum tíma, 16:50 að íslenskum og logaði kirkjan stafnana á milli áður en loks tókst að ná stjórn á eldinum.

Þó náðist að bjarga ýmsum ómetanlegum gersemum sem geymdir voru í inni í kirkjunni, þar með talið það sem trúað er að sé þyrnikóróna Krists, kyrtill Lúðvíks níunda konungs og fjöldi ómetanlegra listmuna.

Viðgerð stóð yfir á kirkjunni, sem er um 850 ára gömul, og er það talið möguleg ástæða eldsins, en Newsweek fjallaði um það fyrir mánuði að á árinu hefði fjöldi kirkna í landinu orðið fyrir barðinu á brennuvörgum, að því er virðist.

Macron Frakklandsforseti og fjöldi milljónamæringa hafa lofað að kirkjan verði endurbyggð, en allar götur í kringum afgirt aðgerðarsvæði slökkviliðsins voru fullar af fólki sem stóð eða kraup í bæn og söng meðan á slökkvistarfinu stóð.

 

 

Ljósmyndari Viðskiptablaðsins var á ferð í kirkjunni árið 2016, en hér má sjá myndir úr ferðinni:

 

 

 

 

Stikkorð: París  • eldur  • kirkja  • menningarverðmæti  • Notre Dame