*

Bílar 18. ágúst 2013

Þriðji dýrasti bíll heims

Ferrari 275 GTB seldist á 3,3 milljarða í gær á uppboði í Kaliforníu. Sama fjölskyldan átti bílinn í 45 ár.

Blæjuútgáfa af Ferrari 275 GTB/4 N.A.R.T Spider, árgerð 1967, seldist á uppboði í gær hjá RM Auctions í Kaliforníu.

Uppboðsfyrirtækið áætlaði að bíllinn myndi seljast á 14-17 milljónir Bandaríkjadala en hann seldist á 27,5 milljónir dala, um 3,3 milljarða króna. Hann er því næst dýrsti bíll sem selst hefur á uppboði. Hann er jafnframt talinn vera þriðji dýrasit bíll í heimi.

Aðeins voru smíðuð 10 eintök af bílnum og skýrir það m.a. hversu eftirsóknarverður hann er. Að auki hefur aðeins einn eigandi átt bílinn frá upphafi sem eykur verðgildi hans.

Sá er kaupsýslumaðurinn Eddie Smith Sr. frá Norður Karólínu sem sótti bílinn í verksmiðju Ferrari í Maranello á Ítalíu árið 1967.Eddie keypti bílinn á 8.000 dali sem er á núvirði um 56 þúsund dalir. Hann hefur því hagnast gríðarlega á fjárfestingunni. Eddie lést fyrir skömmu og stóð fjölskylda hans að sölu bílsins.

Dýrasti bíll sem vitað er um seldist í síðasta mánuði, en hann er gamall kappakstursbíll af gerðinni Mercedes Benz W196. Hér má lesa frétt vb um þann bíl.

Bíllinn var framleiddur á árunum 1964-1968. Hann er með 3,3 lítra V12 vél.

Bíllinn er óaðfinnanlegur, bæði að innan sem utan.