*

Ferðalög & útivist 7. janúar 2020

National Geographic verðlaunar Bláa lónið

Lesendur National Geographic völdu The Retreat Bláa lónsins besta hótelið utan landsteina Bretlands. Þúsundir lesenda kusu.

Fimm stjörnu hótel Bláa lónsins, sem ber heitið The Retreat, sem útleggja mætti á íslensku sem Athvarfið, var valið besta hótel heims árið 2019 af lesendum National Geographic Traveller. Fékk hótelið verðlaunin í flokki áfangastaða, en tímaritið valdi einnig Titanic hótelið í Belfast til verðlauna í flokki hvíldardvalar í heimalandinu, Bretlandi.

Þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru veitt en þúsundir lesenda tímaritsins um allan heim kusu. Lesendurnir völdu meðal annars besta ferðamannastaðinn, bestu upplifunina og besta áfangastað fjölskyldunnar.

National Geographic Traveller er eitt virtasta ferðatímarit heims sem kemur út í um 20 löndum og hefur milljónir lesenda. Tímaritið hefur verið gefið út frá árinu 1984 og er afsprengi National Geographic tímaritsins sem hefur komið út frá árinu 1888. Tímaritin eru nú bæði hluti af Disney-útgáfurisanum.

The Retreat Bláa Lónsins hefur hlotið á þriðja tug alþjóðlegra verðlauna frá því að það opnaði á páskadag í fyrra þar á meðal hin þekktu Red Dot-hönnunarverðlaun sem það hlaut í sumar.

Meðal annarra áfangastaða sem hlutu verðlaun ferðaútgáfu náttúru- og landfræðitímaritsins fræga er Suðurskautslandið sem svæði sem vert er að fylgjast með, Ítalía sem algert uppáhalds áfangastaður, Sjávarlíffræðisafnið í London sem nýtt þjóðargersemi, gönguskíði á Fuxi fjalli í Kína í flokki fjarlægra áfangastaða og svo má lengi telja.

Lesa má frekar um verðlaunin og verðlaunahafana á vef National Geographic Traveller.