*

Sport & peningar 7. maí 2016

Náttúruperla við Kyrrahafið

Fyrir kylfing er það að leika hring á Torrey Pines vellinum í San Diego líkt og að taka þátt í pílagrímsferð.

Bjarni Ólafsson

Golfvöllurinn Torrey Pines í San Diego í Kalíforníu er einn af frægustu golfvöllum heims, en þar er árlega haldið eitt af mótunum í PGA mótaröðinni, Farmers Insurance Open, og þá hefur US Open mótið einnig verið haldið þar. Golfvöllurinn var opnaður árið 1957 og var Farmers mótið fyrst haldið í lok sjöunda áratugarins.

Umhverfið í kringum golfvöllinn er afar fallegt, en völlurinn liggur alveg við Torrey Pines þjóðgarðinn. Tveir vellir, suður- og norðurvöllur, eru á staðnum. Brautirnar þræða strandlengjuna og er Kyrrahafið aldrei úr augsýn leikmanna. Sumar holurnar eru reyndar svo nærri klapparbarminum að ekki er óalgengt að of ákafir kylfingar slái hreinlega beint út í hafið.

Er þriðja holan á suðurvellinum sérstaklega hættuleg hvað þetta varðar. Völlurinn er ekki í eigu einkaklúbbs, eins og svo margir af bestu golfvöllum heims, heldur er hann í eigu borgarinnar. Það gerir það að verkum að fyrir íbúa San Diego er tiltölulega ódýrt að spila á vellinum, en ef þú mætir eftir klukkan eitt á daginn er vallargjaldið um 45 dalir. Það er í hærra lagi miðað við íslenska velli, en í raun hlægilega ódýrt þegar gæði vallarins og útsýnið er haft í huga. Fyrir utanaðkomandi er hins vegar mun dýrara að spila á Torrey Pines.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Golf  • San Diego  • Torrey Pines  • PGA