*

Sport & peningar 30. október 2011

NBA liðin eftirsótt

Auðkýfingar heimsins eiga sér mörg leikföng og eru íþróttafélög oft í hópi vinsælla leikfanga.

Gísli Freyr Valdórsson

Vel efnuðu fólki hefur lengi verið tamt að kaupa sér ýmiss konar leikföng fyrir auðæfi sín. Þannig má nefna snekkjur, einkaflugvélar, sportbíla, hallir og fleira. En sumir láta sér ekki nægja fyrrgreindan lúxus og fjölmargir bæta um betur – og kaupa sér íþróttalið.

Bandaríska tímaritið Forbes birti nýlega lista yfir 10 efnamestu íþróttaliðseigendur heims. Flestir eiga þeir það sameiginlegt að vera þekktir glaumgosar og iðnir við að njóta hins ljúfa lífs. Rétt er þó að hafa í huga að það eru ekki íþróttafélögin sem hafa gert þessa menn jafn auðuga og raun ber vitni. Því endurspegla íþróttafélögin ekki endilega auðæfi eigandans eða öfugt.

Eftirsótt NBA lið

Ríkastur þeirra allra er þó Indverjinn Muhesh Ambani, eigandi krikketliðsins Mumbai Indians. Ambani erfði, ásamt bróðir sínum Anil, iðntækni- og orkufyrirtækið Reliance Industries eftir föður sinn. Ambani er níundi ríkasti maður heims skv. lista Forbes og keypti krikketliðið árið 2008. Liðinu gekk þó illa fyrst um sinn en í fyrra keppti það til úrslita í indversku meistarakeppninni í krikket.

Rússinn Mikhail Prokhorov situr í öðru sæti listans. Hann er piparsveinn og þekktur fyrir mikið partýhald. Hann keypti bandaríska NBA körfuboltaliðið New Jersey Nets í fyrra og varð þar með fyrsti eigandi NBA liðs sem ekki er Bandaríkjamaður.

Það þarf varla að koma á óvart að Íslandsvinurinn Roman Abramovich sé á listanum yfir 10 ríkustu menn heims sem eiga íþróttafélög. Líkt og landi hans Prokhorov er Abramovich jafnframt einhleypur.

Annar Íslandsvinur, forsætisráðherra Ítalíu og fjölmiðlamógúllinn Silvio Berlusconi, situr í fimmta sæti listans en hann er sem kunnugt er eigandi ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan. Aðrir á listanum eru minna þekktir á alþjóðavísu þó allir séu þeir þekktir í sínu heimalandi.

Stikkorð: NBA  • sport og peningar