
Nú geta neikvæðir orðið jákvæðir. Það er þó vissara að gleðjast bara í smástund því að nýjustu rannsóknir sýna að neikvætt fólk lifir lengur. Vefsíðan Life Science segir frá.
Hópur gamlingja í Þýskalandi var rannsakaður og þeir sem höfðu litlar væntingar hvað varðar framtíðarhorfur lifðu lengur en þeir sem voru jákvæðir út í framtíð sína.
„Niðurstöður okkar gefa til kynna að þeir sem eru of jákvæðir út í framtíðina og lífið sjálft eru í meiri hættu að lenda í áföllum og að deyja fyrir aldur fram á næstu tíu árum,“ segir Frieder R. Lang hjá háskólanum í Erlangen-Nuremberg í Þýskalandi. „Neikvæðni út í framtíðina lætur fólk frekar fara varlega, það tekur færri áhættur og hugar betur að heilsunni.“