*

Menning & listir 11. mars 2014

Neptún: Mótsvar við dauða prentsins

Neptún, nýtt íslenskt tímarit um hönnun og myndlist, hefur vakið mikla athygli bæði erlendis og hér heima.

Kári Finnsson

Neptún er nýtt íslenskt tímarit um hönnun og myndlist sem vakið hefur mikla athygli allt frá því að fyrsta tölublað þess kom út fyrir rúmum mánuði síðan.

Ritstjórn tímaritsins er skipuð fjórum ungum konum með ólíkan bakgrunn á sviði hönnunar og lista. Þær Ágústa Arnardóttir og Elsa Ýr Bernharðsdóttir eru báðar vöruhönnuðir, Helga B. Kjerúlf er með B.A. í arkitektúr og Kolbrún Þóra Löve er menntuð í myndlist með áherslu á ljósmyndun. Allar eru þær sammála um að þörf hafi verið fyrir blað af þessu tagi. „Við vorum allar í sitthvoru horninu með hugmyndir um svona blað en það var ekki fyrr en við sameinuðum krafta okkar sem þetta small saman. Þar sem við komum allar úr ólíkum sviðum þá komum við strax með fullt af hugmyndum á borðið sem hægt var að vinna með. Það er vissulega til staðar umfjöllun um list og hönnun á Íslandi en hún er yfirleitt á netinu, í dagblöðum eða í minni blöðum og oftast er hún ekki mjög ítarleg. Við vildum koma með miklu meiri breidd í umræðuna um hönnun og list en við birtum t.a.m. myndaseríur, viðtöl og sérstakar umfjallanir um þau málefni í blaðinu.“

Sterk hugmyndafræði er að baki hönnunar Neptúns en t.a.m. er seljendum þess meinað að verðmerkja blaðið svo að heildarsvipur þess beri ekki skaða af. Að auki eru allar auglýsingar blaðsins hannaðar af Helgu Kjerúlf, sem er jafnframt aðalhönnuður blaðsins. „Auglýsendur hafa tekið mjög vel í þetta framtak okkar og miðað við viðtökurnar munum við jafnvel taka þetta enn lengra í næsta blaði. Við viljum helst leika okkur eitthvað með auglýsingarnar svo þær falli skemmtilega inn í heildarmynd blaðsins.“

Blaðið var fjármagnað í upphafi að miklu leyti í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund en ritstjórar blaðsins segja að stuðningur hafi komið frá einstaklingum hvaðanæva að. „Við náðum að fanga athygli nokkurra bloggsíðna snemma og þá fór orðið að breiðast frekar hratt. Á endanum vorum við farin að senda eintök t.d. til Los Angeles, Zürich og New York svo örfá dæmi séu nefnd. Við heyrðum t.d. frá einum búðareiganda í Bandaríkjunum sem hafði heyrt nokkrar fyrirspurnir frá viðskiptavinum sínum um blaðið nokkru áður en það kom út."

Nánar er rætt við ritstjóra Neptún í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Neptún