*

Hitt og þetta 22. nóvember 2005

Netblöðin sækja á í Bandaríkjunum

Samkvæmt nýlegri úttekt bandaríska markaðsrannsóknarfyrirtækisins Nilsen/NetRatings hafa daglegar heimsóknir á vefsíður bandarískra dagblaða aukist um 11% á ári um skeið og séu nú orðnar um 39,3 milljónir talsins. Þetta jafngildir um fjórðungi allra bandarískra netnotenda.

Málið er tekið upp á heimasíðu Blaðamannafélags Íslands, press.is. Þar kemur fram að Nilsen/NetRatings telur að um 22% bandarískra dagblaðalesenda hafi skipt yfir á rafræna notkun, en fyrirtækið bendir jafnframt á að um 71% dagblaðalesenda vilji enn fá prentútgáfuna af dagblaðinu, en um 7% skipta tíma sínum milli netútgáfu og prentútgáfu í nokkuð jöfnum hlutföllum.

Lang flest, ef ekki öll, stærstu og vinsælustu vefsvæðin bjóða upp á gagnkvæma notkun og eru ekki í einhliða upplýsingagjöf. Þar er þá hægt að nýta sér blogg, og hvers kyns sjónvarps og hljóðvarpsefni. Talið er a þessi gagnkvæmni í bland með þorsta netnotenda í nýjustu upplýsingar skýri aukinn áhuga á vefsíðum blaðanna að sögn Gerry Davisson, sérfræðings hjá Nilsen NetRatings.

Byggt á press.is