*

Bílar 30. október 2019

Nettur borgarbíll frá Nissan

Þó nýr smábíll frá Nissan sem kynntur er á bílasýningunni í Tokyo eigi að rúma 5 manns yrðu það að vera nettir einstaklingar.

Nissan kynnti nettan borgarbíl sem ber heitið iMk á alþjóðlegu bílasýningunni í Tókíó sem nú stendur yfir. Þetta er minnsti bíll sem Nissan hefur komið fram með en margur er knár þótt hann sé smár og kannski á hinn netti iMk eftir að sanna það.

Bíllinn er aðeins 3434 millmetra langur og 1512 millimetra breiður. Ólíklegt að þar komist innandyra nema frekar nettir einstaklingar sérstaklega ef þéttsetið verður í bílnum. Bíllinn er fjögurra dyra og á að rúma fimm manns að sögn japanska bílaframleiðandans. Engir takkar eru í innanrýminu aðeins ræsihnappur og gírstöng en allt annað er í aðgerðarskjá.

Þakið er úr gleri og í stað hliðarspegla eru myndavélar. Þessi hugmyndabíll er rafknúinn og rafhlaðan í gólfbotninum. Útlitið er sérstakt en hann er mjög kassalaga eins og sjá má og húddið með því stysta sem sést hefur á bíl. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi hugmyndabíll fer í framleiðslu og hvort og þá hve mikið útlitið mun breytast á lokasprettinum.

Stikkorð: Nissan  • bílasýning  • Tokyo  • iMk