*

Bílar 22. apríl 2016

Nettur jepplingur frá Volkswagen

Volkswagen sýndi nýjan og nettan jeppling T-Cross Breeze á bílasýningunni í Genf í síðasta mánuði.

Volkswagen sýndi nýjan og nettan jeppling T-Cross Breeze á bílasýningunni í Genf í síðasta mánuði. Breeze er blæjubíll og á stærð við VW Polo en bara hærri. 

Hönnunin er nokkuð svöl. Grillið er í stærra lagi og ljósin frekar lítil og það eru LED-ljós hringinn í kringum þokuljósin. Þó þessi jepplingur sé smár er hann þó með 300 lítra skott þannig að það er hægt að koma svolitlum farangri þar fyrir.

T-Cross Breeze er með 1,0 lítra bensínvél og 7 gíra sjálfskiptingu. Vélin skilar 110 hestöflum og togið er 175 Nm. Bíllinn eyðir 5 lítrum og mengunin er 115 g/km samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. 

T-Cross vegur aðeins 1.250 kíló, er 10,3 sekúndur íúr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 188 km/klst. Volkswagen ætlar einnig að koma með jeppling á markað sem verður í sama stærðarflokki og VW Golf og verða þá smáir jepplingar fyrirtækisins orðnir þrír.

Þýski bílaframleiðandinn er greinilega að stíla inn á auknar vinsældir lítilla jepplinga eins og fleiri bílaframleiðendur enda hefur sala þeirra aukist mjög undanfarin misseri.

Stikkorð: Volkswagen  • Bílar  • Cross Breeze