*

Bílar 2. júní 2018

Nettur og sportlegur

BMW X2 er nýjasti fjölskyldumeðlimur bæverska lúxusbílaframleiðandans.

BMW X2 hefur sterkan ættarsvip og er keimlíkur bræðrum sínum í X-línunni. Þessi nýi bíll er í stærðarflokki milli X1 og X3 og leggja hönnuðir BMW áherslu á að X2 sé ekki síst hannaður með þá í huga sem búa utan borgarmarkanna þar sem vegaðstæður eru aðrar en í þéttbýlinu.

Hönnunin er fyrst og fremst sportleg og svolítið „coupe“ yfirbragð yfir honum með lækkandi þaklínu að aftan. Það bitnar á plássinu fyrir aftursætisfarþega og farangur en lúkkar óneitanlega mjög vel. BMW X2 er með LED ljós bæði að framan og aftan og hann er með stóran vindkljúf að aftan og fremur stórar hlífðarplötur í öðrum lit en aðal-litur bílsins og það eykur á kraftalegt útlit hans. Hinn nýi X2 er raunar 8 sentimetrum styttri en X1 þó hann virðist það ekki við fyrstu sýn. Jafn langt er á milli öxla hans og á X1 bílnum og hann er um 8 sentimetrum lægri til þaksins og því sportlegri á að líta eins og áður segir.

Fínustu aksturseiginleikar

BMW bílar eru þekktir fyrir mjög góða aksturseiginleika og þessi nýi X2 er engin undantekning. Þetta er ekki kannski alveg eins spennandi akstur og á Þristinum eða Fimmunni enda kannski erfitt og ósanngjarnt að bera saman við þá framúrskarandi akstursbíla. Engu að síður er mjög fínt að keyra þennan nýja bíl miðað við nettan sportjeppa. Hann er þéttur og þægilegur í akstri, stýringin mjög góð sem og fjöðrunin.

Bíllinn er með þrjár akstursstillingar, Comfort, Eco Pro og Sport og Dynamic og hægt að velja hvort maður vill sérlega sparneytinn eða sportlegan akstur. Damper Control-stillingin á fjöðruninni gerir mikið fyrir aksturinn sem og átta gíra Steptronic sjálfskiptingin sem er sérlega ljúf og þægileg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig í Áskrift.

Stikkorð: Jeppi  • BMW X2