*

Tölvur & tækni 19. júní 2014

Netverslunin Amazon setur síma á markað

Nýr sími Amazon fær meðaldóma hjá tækninördum.

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi bandarísku netverslunarinnar Amazon, kynnti í gær til sögunnar nýjan snjallsíma úr smiðju fyrirtækisins. Síminn heitir nokkurn vegin það sama og nýrri lesbretti fyrirtækisins eða Amazon Fire í stað Kindle Fire. Síminn keyrir á stýrikerfinu Fire OS 3.5.0. sem er aðlögun Amazon á Android 4.2 Jelly Bean-stýrikerfi Google. 

Síminn er 14 sentimetra hár, 6,6 sentimetra breiður og tæplega 9,0 millimetra þykkur. Þá er hann tæp 160 grömm á þyngd. Til samanburðar er Samsung Galaxy S5-síminn, sem er sá nýjasti úr smiðju Samsung, 14,2 sentimetrar á hæðina, 7,2 sentimetrar á breiddina og 8,1 millimetrar þykkur. Þá er Samsung-síminn ívið léttari en síminn frá Amazon eða 145 grömm á móti 160 grömmum Amazon-símans. Skjárinn er svo 4,7 tommur sem er jafnstór skjár og prýðir Nokia Lumia 625.

Í símanum er svo 13 MP myndavéla og 2,1 MP myndavél að framanverðu. Rafhlaðan á að endast í 22 klst ef talað er í símann en tíu sinnum lengur í bið. 

Minni síman er ýmist 32 GB eða 64 GB.

Tæknisérfræðingarnir hjá netmiðlinum Engadget eru auðvitað búnir að prófa símann. Þeir segja símann ekki koma á óvart enda hafi verið reiknað með þessu skrefi Amazon í nokkur misseri. Þeir segja símann í meðallagi enda ekkert sérstakt í honum sem veiti honum forskot umfram aðra síma. 

Stikkorð: Amazon  • Kindle  • Amazon Fire