*

Tölvur & tækni 17. nóvember 2015

New York til London á 30 mínútum

Ný ofurþota sem er ætlað að koma á markað í náinni framtíð getur flogið fimm sinnum hraðar en Concorde.

Ný þota sem ber heitið Skeemr á að geta flogið fimm sinnum hraðar en Concorde er á teikniborðinu og henni er ætlað að koma á markað í náinni framtíð.

Skeemr er ætlað að ná tíföldum hljóðhraða, sem jafngildir 12.300 kílómetra hraða á klukkustund. Með þeim hraða væri hægt að ferðast frá London til New York á um hálftíma.

Kanadíski hönnuðurinn Charles Bombardier ásamt Rau Mattison unnu að hönnun flugvélarinnar. Charles Bombardier er barnabarn Joseph-Armand Bombardier sem stofnaði flugvélaframleiðandann Bombardier.

Þeir sjá fyrir sér að vélinni yrði skotið á loft eftir segulteini en eftir að þotan fari að brenna fljótandi eldsneyti muni hún ná nægilegri flughæð til að virkja „scramjet“-hreyfla.

Ennþá eru nokkur vandamál sem þarf að finna lausnir á. Meðal annars þarf að finna hvaða efni er best að nota í flugvélasmíðina, en efnið þyrfti að þola gríðarlega hita. Einnig þarf að komast að því hvernig er hægt að koma vélinni á loft án þess að farþegarnir æli vegna áhrifa frá þyngdarhröðun, en Bombardier er þess fullviss um að hægt verði að yfirstíga þessar hindranir.

Allt um flug greinir frá.

Stikkorð: Skeemr