*

Sport & peningar 22. júní 2015

NFL stjarna hefur ekki eytt krónu af laununum sínum

Rob Gronkowski hefur þénað rúma tvo milljarða króna sem leikmaður New England Patriots en hefur ekki eytt krónu.

NFL stjarnan Rob Gronkowski hefur ekki eytt krónu af þeim rúmlega tveimur milljörðum sem hann hefur þénað á fimm árum sem leikmaður New England Patriots í NFL deildinni.

Hinn ungi Gronkowski er við það að gefa út sjálfsævisögu og birtust brot úr henni á theMMQB.com í dag. Nefnist bókin „It‘s Good to be Gronk“.

Meðal þess sem segir í bókinni er: „Allt til þessa dags, þá hef ég ekki snert svo mikið sem krónu af bónusnum sem ég fékk þegar ég skrifaði undir eða NFL laununum mínum. Ég lifi á auglýsingatekjunum mínum og hef ekki eytt neinu í dýra bíla, dýra skartgripi eða húðflúr. Ég klæðist ennþá uppáhalds gallabuxunum mínum úr framhaldsskóla.“

Gronkowski er ein af skærustu stjörnum NFL deildarinnar og eftir annað tímabil sitt hjá New England Patriots skrifaði hann undir 54 milljóna dollara samning, og fékk þar að auki 8 milljónir dollara í bónus við undirskriftina. Hann virðist þó ekki láta peningana stíga sér til höfuðs.

Stikkorð: NFL  • íþróttir  • amerískur fótbolti