*

Hitt og þetta 19. febrúar 2006

Nike stefnir Adidas-Salomon

Bandaríski íþróttavöruframleiðendinn Nike hefur stefnt keppinauti sínum Adidas-Salomon á grundvelli brota á einkaleyfalöggjöf. Í frétt á fréttavef BBC kemur fram að Nike heldur því fram að Adidas-Salomon notist við tækni í skóframleiðslu sem Nike eigi einkaleyfi á. Hafa Nike-menn krafist skaðabóta.

Nike segist eiga 19 mismunandi einkaleyfi í framleiðslu hlaupaskóa sem styðjist við SHOX tækni. Þrátt fyrir einkaleyfi Nike hefur Adidas-Salomon framleitt skó sem byggjast á tækni Nike. Er málinu stefnt fyrir dóm í Texas.

Adidas-Salomon lauk við yfirtöku sína á Reebok í síðasta mánuði og hefur verið að eflast mjög undanfarið. Félagið borgaði 3,8 milljarða bandaríkjadala fyrir Reebok og hyggst þannig auka markaðshlutdeild sína í Bandaríkjunum verulega.

Talsmenn Adidas segjast vera að fara yfir einstakal liði stefnu Nike og treysti sér því ekki til þess að úttala sig um hana.

Mikið hefur gengið á hjá Nike undanfarið en forstjóri félagsins William Perez, sagði upp fyrir skömmu eftir átök við stjórn félagsins. Hann hafði þá starfað í 13 mánuði hjá félaginu.