*

Bílar 21. mars 2012

Nissan blæs lífi í Datsun-merkið

Bílaframleiðandinn Nissan ætlar að setja færibandið í gang á ný og framleiða Datsun-bíla. Framleiðslunni var hætt árið 1986.

Bílaframleiðandinn Nissan ætlar að blása nýju lífi í Datsun, bíl sem fyrirtækið hætti að framleiða árið 1986. Bílarnir verða framleiddir sérstaklega fyrir fólk í svokölluðum nýmarkaðsríkjum á borð við Indland, Indónesíu og Rússland og á að höfða til ungs fólks á uppleið sem er að leita að sínum fyrsta bíl. Fyrsti Datsun-inn af þessari nýju gerð kemur á markað árið 2014.

Carlos Ghosn, forstjóri Nissan, sagði á kynningarfundi í gær stefnt að því að bílarnir verði sérsniðnir fyrir hvert og eitt markaðssvæði. Það þýðir að vélar bílanna verða ólíkar, bæði hvað stærð og kraft snertir.

AP-fréttastofan hefur jafnframt eftir Vincent Vobee, aðstoðarforstjóra Nissan, að tvær týpur verði settar á markað í löndunum þremur árið 2014. Fleiri gerðir muni líta dagsins ljós eftir því sem fram vindur.

AP-fréttastofan segir Nissan vera með þessum ráðagerðum að bregðast við aukinni samkeppni á nýmörkuðum, svosem í Kína, Mexíkó og í Brasilíu en þar hefur bæði hagsæld og neysla aukist þótt rauð ljós séu sögð tekin að blikka í Kína og tekið að hægja á í hagkerfinu. Aðrir bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Honda og fleiri hafa af þeim sökum beint sjónum sínum þangað í meiri mæli en áður.

Datsun var í grunninn japanskt fyrirtæki. Það var byggt á grunni japanska fyrirtækisins Kaishinsha Motorcar Works, sem framleiddi svokallaðan DAT-bíl árið 1914. Fyrsti bíllinn undir merkjum Datsun kom svo á markað árið 1932. Framleiðslu bílanna var hins vegar hætt árið 1986.

Hér má sjá nokkrar gerðir af bílum Datsun í gegnum tíðina.

 Nissan Datsun Bluebird 1971


Datsun 240Z-konseptbíll


Datsun Bluebird 1959


Datsun Cherry

Stikkorð: Datsun  • Carlos Ghosn  • Carlos Goshn