*

Bílar 6. nóvember 2015

Nissan Gripz eins og gripinn úr vísindaskáldsögu

Nýr concept-bíll Nissan var frumsýndur án bílasýningunni í Frankfurt í haust og vakti mikla athygli.

Nýr hugmyndabíll Nissan er kallaður 'Gripz', og lítur nokkurn veginn út eins og skorinn úr vísindaskáldsögu.

Kagginn er eins konar blanda af Juke sportjeppanum og 240Z rallíbílnum frá Nissan. Víst er að bara hönnunin er nóg til að opna augu viðstaddra, enda er hönnunin mjög framúrstefnuleg.

Gripz er með tvinnvél sem samnýtir rafmótor með bensínbrennslumótor. Bifreiðin er fjögurra sæta, með tveimur sportsætum frammí og tveimur aftur í.

Hurðirnar eru vænghurðir sem opnast upp í loft, sem gerir hann ansi töffaralegan. Að utan er hann gífurlega sportlegur í útliti en þegar inn er stigið kemur gamaldags rallíinnrétting í ljós - innvortis minnir hann á Z-rallbílinn sem sló í gegn í safari rallíum á áttunda áratugnum.

Stýrið er stórt og stjórntækin mínímalísk og hreinleg. Bíllinn er þó búinn nútímalegum tækniskjá með öllum helstu þægindum og upplýsingum eins og flestir nútímabílar búa yfir.

Nissan hefur gengið vel með Qasqai og Juke gerðirnar sínar, og fróðlegt væri að sjá hvort Gripz með sitt framúrstefnulega yfirbragð fari í framleiðslu.

Stikkorð: Bílar  • Nissan  • Gripz