*

Hitt og þetta 3. desember 2019

Níu einkaeyjar falar á 3,6 milljarða

Níu Bahama-eyjar „Kolakonungsins“, sem Richard Nixon heimsótti mikið í embættistíð sinni, eru nú til sölu.

Níu einkaeyjar á Bahama-eyjum eru nú til sölu fyrir rúma 3,6 milljarða króna. Eyjarnar eru undan ströndum Florida-fylkis og voru í eigu bandaríska athafnamannsins og milljarðamæringsins Chris Cline, sem var gjarnan þekktur vestra sem „Kolakonungurinn“.

Cline, sem var sextugur, lést í þyrsluslysi síðasta sumar ásamt dóttur sinni, þremur vinkonum hennar, og tveimur flugmönnum á leið sinni af einni af eyjunum. Dánarbúið hefur sett eyjarnar á sölu, en Cline keypti þær árið 2015 með það í huga að gera þær að griðarstað fyrir fjölskyldu og vini. Seljandinn, Robert Abplanalp, hafði átt eyjarnar í áratugi og var góður vinur fyrrverandi bandaríkjaforseta, Richard Nixon, sem heimsótti þær margoft meðan hann var í embætti.

Aðaleyjan heitir Big Grand Cay, og á henni má finna sjö hús af ýmsum stærðum og gerðum, auk starfsmannahúsnæðis og nokkurskonar heimavist með rými fyrir fleiri tugi manns. Þá má þar meðal annars finna sundlaug, tvær smábátahafnir, líkamsræktarstöð og tennis- og körfuboltavelli.

Í grein Wall Street Journal um málið er vísað í blaðagrein frá 1970 þar sem meðal annars kom fram að Nixon hefði yndi af því að aka um eyjuna á golfbílnum sínum, og að vopnaðir lífverðir hefðu fylgt honum til sunds á bátum, þar sem hákarlar væru nokkuð algengir á svæðinu. Í einu eldri húsanna er enn til staðar svokallað „Nixon svefnherbergi“, sem hann hafði til afnota meðan hann dvaldi á eynni.

Stikkorð: Richard Nixon  • Chris Cline