*

Hitt og þetta 1. júní 2013

Njósnað um nágrannann

Ef þú telur þig búa við hliðina á glæpamanni þá eru hér nokkur ráð til að komast að hinu sanna.

Hagar nágranni þinn sér furðulega? Veistu ekki alveg hvar þú hefur hann? Er stundum kveikt í stofunni á óeðlilegum tímum, segjum eftir kl. 22 og dregið fyrir gluggana þegar flest heiðarlegt fólk er mætt í sund með berjabúst í maganum?

Ef þú heldur að nágranni þinn gæti verið í vafasömum félagsskap og jafnvel verið glæpamaður sjálfur þá þarftu að fá botn í það syndsamlega mál. Þú þarft auðvitað að vita hvers lags lið býr í næstu húsum. Þú vilt ekki bara hafa þetta einhvern veginn. Hér koma nokkur ráð frá Viðskiptablaðinu um hvernig best skal farið að því að njósna um nágrannann.

Garðvinna. Farðu út í garð og sinntu garðstörfum mjög nálægt opnum glugga nágrannans. Tíndu rusl allt í kringum húsið hans og reyndu að sjá inn. Hér væri gott að munda vídeóupptökuvél svo lítið beri á. 

Fáðu lánað. Bankaðu upp á og athugaðu hvort hann eigi bensínbrúsa, tangir, kúbein eða hafnaboltakylfu til að lána þér því þú ert læst(ur) úti. 

Hlustaðu. Skríddu inn um opinn glugga og komdu þér fyrir undir rúmi eða á bakvið skáp með upptökutæki. Ef þú átt ekki upptökutæki skrifaðu þá niður allt sem þú heyrir. 

Spegill. Bankaðu upp á og spurðu hvort hann eigi spegil því þinn hafi nefnilega brotnað og þú þurfir að kíkja á bakvið ísskápinn til að athuga hvort gluggapósturinn hafi nokkuð dottið á bakvið hann. Ef hann réttir þér ferkantaðan spegil þá er hann dópisti sem tekur kókaín.

Vinir nágrannans. Sittu úti í glugga og taktu niður bílnúmer allra sem koma og fara frá nágrannanum. Búðu til excel skjal með þessum upplýsingum og athugaðu hvort sami bíllinn komi oftar en aðrir og á hvaða dögum og svo framvegis. Sendu skjalið til lögreglunnar og kallaðu það: Ég held að nágranni minn sé glæpamaður en ég er ekki viss svo það þyrfti að skoða öll þessi bílnúmer og rannsaka eigendur bílanna og fjölskyldur þeirra. Kær kveðja, X. 

Ruslatunnan. Hér þarf að fara gætilega. Þú skalt læðast um miðja nótt og gramsa í ruslatunnu nágrannans. Vertu í appelsínugulum kraftgalla eins og starfsmenn Reykjavíkurborgar ef einhver skyldi koma að þér eða vertu með hárkollu og í trúðabúning svo þú þekkist ekki. Þú vilt ekki gera þig að algjöru fífli.  

Farið í frí. Laumaðu miða inn um lúgu nágrannans þar sem þú segist vera á leið í helgarferð. Taktu fram að þú hafir sagt upp Securitas (ööömurleg þjónusta) og það verði enginn heima. Prentaðu út eftirlíkingar af Monu Lísu og Ópinu, rammaðu inn og hengdu upp nálægt glugga. Hringdu síðan í sérsveitina og settu upp vakt í eldhúsi alla helgina. Mundu að eiga nóg af kaffi, sérsveitin elskar kaffi.

Stikkorð: Glæpamenn  • Njósnir  • Hafnaboltakylfa  • Kúbein