*

Bílar 17. september 2012

Njósnamyndir af nýjum Mercedes-Benz á Íslandi

Splunkunýjar myndir náðust óvænt við Bláa lónið af bíl sem Mercedes-Benz hefur smíðað.

Þýska vikuritið Der Spiegel birti nýlega njósnamyndir af nýjum Mercedes-Benz bíl sem ber nafnið CLA, sem voru teknar á Íslandi. Samkvæmt Der Speigel er nokkuð ljóst af myndunum að dæma að CLA fái margt frá CSC hugmyndabílnum sem hann er byggður á og var frumsýndur á bílasýningunni í Peking. Einnig sæki hann ýmislegt til hins nýja A-Class.

Myndirnar sem teknar voru af bílnum sýna að hann var við og í nágrenni Bláa lónsins og hefur því án efa mest verið í akstri á Suðurnesjum. Líklegt má telja að bíllinn hafi verið í myndatökum fyrir auglýsingar þar sem hann er alveg nýr af nálinni. Yfirleitt eru glænýir bílar sem ekki eru komnir á markað dulbúnir en svo var ekki með þennan bíl. Ljóst er þó að þetta eru fyrstu myndirnar sem birtast af bílnum.

CLA er byggður á sama MFA-undirvagni og A-Class- og B-Class-bílarnir en svo virðist sem Benz ætli að smíða marga bíla á þeim vel heppnaða undirvagni, líklega fimm talsins. Grunnútgáfa CLA-bílsins sem boðinn verður vestanhafs verður sennilega með 211 hestafla 1,8 lítra bensínvél og mun heita CLA250. Hann verður með sjö gíra sjálfskiptingu með tveimur kúplingum. Bíllinn verður boðinn með bensín- og dísilvélum með BlueEFFICIENCY sparnaðartækni. Mercedes-Benz CLA-línan verður að líkindum frumsýnd seint á þessu ári á bílasýningunni í Los Angeles.