*

Sport & peningar 27. febrúar 2014

Nóg pláss fyrir ferðamenn í Sotsí

Ærið verkefni bíður þeirra sem nú reka hótelin sem áður hýstu gesti Ólympíuleikanna í Sotsí í Rússlandi. En það er að fylla þau á ný.

Stanislav Kaznetsov, varaformaður stjórnar Sberbank, sem er í eigu rússneska ríkisins, er önnum kafinn þessa dagana og með stórt verkefni fyrir höndum en það er að fylla margar hótelbyggingar í fjöllunum fyrir ofan Sotsí þar sem vetrarólympíuleikarnir fóru fram fyrr í mánuðinum.

The Gorky Gorod er hótelþyrping í fjöllum Kákasus fyrir ofan Sotsí. Svæðið er 780 þúsund fermetrar og níu hótelbyggingar eru á svæðinu. Á meðan á Ólympíuleikunum stóð voru hótelin full af fólki en nú er það verkefni Kaznetsov að fylla þau á ný eftir að leikunum er lokið.

Og það eru ekki bara hótel sem eru á svæðinu heldur líka íbúðarhús, lúxusverslanir og verslunarmiðstöð með sandströnd og stöðuvatni á efstu hæðinni.

Kuznetsov segist horfa bjartsýnn til framtíðar í samtali við Reuters í síðustu viku en Sberbank á um 92% í Gorky Gorod. Hann segir þó nokkra möguleika koma til greina á því að fylla hótelin þar sem pláss er fyrir um 6000 gesti. Á sumrin sé heitt og fólk getur legið í sólinni við ströndina en einnig farið upp í fjöllin í svalara loft verði of heitt við hafið. Ekki er samt líklegt að margir gestir ferðist til Gorky Gorod frá öðrum löndum vegna þess að ekki er beint flug á staðinn og erlendir gestir þurfa vegabréfsáritanir.

Stuff.co.nz fjallar um málið á vef sínum hér.