*

Tölvur & tækni 7. nóvember 2013

Nokia Lumia 1020: Ótrúlegur myndavélarsími

Nýjasti síminn úr smiðju Nokia kom að góðum notum á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Myndavélarsíminn Nokia Lumia 1020 kom nýverið á markað úr smiðju finnska farsímaframleiðandans. Viðskiptablaðið prófaði símann um síðustu helgi og líkaði vel. 

Ekki þarf að tíunda hvernig síminn virkar í þaula. Hann keyrir á Windows 8-stýrikerfinu frá Microsoft eins og aðrir símar í Lumia-seríu Nokia og svipar mjög til þeirra. Það getur tekið nýja notendur smá tíma að venjast því. Síminn er þó örlítið stærri en forverinn Nokia 925 og eilítið þyngri eða 158 grömm á móti 139 grömmum Nokia Lumia 925. Þá er hann nokkuð þykkari en fyrrnefndi síminn. Það skýrist ekki síst af myndavélinni og linsunni sem skagar eilítið út úr símanum. Nokia Lumia 1020 er hins vegar hraðvirkari og með stærra minni. Vinnsluminnið er 2 GB í stað 1 GB og flaggar 32 GB minni í stað 16 GB. 

Öflugur á Iceland Airwaves

Nokia Lumia 1020 er öðru fremur myndavélasími og stendur sig ótrúlega vel sem slíkur. Síminn flaggar 41 MP myndavél sem byggir á PureView-tækni Nokia og með fljótandi linsu frá Carl Zeiss sem skilar sér í skýrum og góðum myndum og lítið sem ekkert hreyfðum. Þegar myndhugbúnaðurinn Nokia Pro Cam bætist við verður Nokia Lumia 1020 að fáranlega öflugri græju. Með hugbúnaðinum er hægt að stilla myndavélina fram og til baka eftir aðstæðum eins og DSLR-myndavél. Kosturinn er auðvitað sá að með símanum flækist ekki stór myndavél fyrir manni. 

Eins og fyrr koma kostir myndavélarinnar í Nokia Lumia 1020 í ljós við erfiðar aðstæður. Ég notaði símann t.d. á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves um helgina og náði með fremur litlum tilfæringum myndum sem mér finnast álíka að gæðum og atvinnuljósmyndarar við sviðin náðu af tónlistarmönnum á hátíðinni. Og ekki þurfti ég að smella mörgum af til að ná ásættanlegum myndum. Birtuskilyrðin voru augljóslega slæm. En það kom ekki að sök. Þá tók ég nokkrar myndir af ferðalögum mínum um borg og bæ, meira að segja á ferðalagi mínu um Snæfellsnes á sunnudag. Þá eru ótalin myndskeiðin sem síminn tekur. Þau eru vægast sagt framúrskarandi.

Ég óttaðist í fyrstu að myndirnar yrðu stórar og þungar í vinnslu. Það var hins vegar ekki raunin því myndavélin býr til tvær myndir af hverri einustu sem tekin er. Önnur er 5MP en hin er í háskerpu. Skrárnar koma hins vegar ekki í ljós fyrr en síminn er tengdur við tölvu og er þá hægt að vinna þær myndir þar sem ekki var hægt að vinna í símanum sjálfum.  

Nokia Lumia 1020 kostar tæpar 130 þúsund krónur. Það er sambærilegt og símar í dýrari kantinum en þó ívið ódýrari en iPhone 5S, nýjasti síminn frá Apple. 

Óunnar myndir

En myndir segja meira en þúsund orð. Myndirnar úr símanum má sjá hér að neðan. Ég tek sérstaklega fram að þær eru ekkert unnar eftir á heldur hráar úr símanum. Neðst má svo sjá myndskeið af tónleikum sem ég tók á Iceland Airwaves. Ég tek fram að ég er ekki fagmaður í ljósmyndun. Upptökunni er öðru fremur ætlað að sýna hversu öflug linsan er í Nokia Lumia 1020.

Eins og sjá má skagar myndavélin lítillega út á Nokia Lumia 1020.

John Grant kom fram á föstudeginum á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves.

Myndavél Nokia Lumia 1020 réð vel við ýmsa liti og fjarlægð frá sviði.

Einar Örn Benediktsson þandi raddböndin á tónleikum Ghostigital í Listasafni Reykjavíkur.

Þessi mynd af Daníel Bjarnasyni og tónlistarfólkinu með honum var tekin úr talsverðri fjarlægð.

Söngkona hljómsveitarinnar Sykur í bleiku ljósi.

Ekki er hægt að greina af myndinni af fjöllunum á Snæfellsnesi að bíllinn sem ég var farþegi í var á um 90 kílómetra hraða þegar smellt var af.

Horft yfir Miklubrautina snemma morguns. Bílarnir sem virðast kyrrir á götunni eru í raun á fleygiferð.