*

Tölvur & tækni 4. september 2013

Nokia Lumia 925: Þrusugræja

Viðskiptablaðið er búið að prófa nýjasta símann frá Nokia. Myndavélin er fantagóð, að mati blaðamanns.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Finnski farsímaframleiðandinn Nokia hefur verið iðið við kolann upp á síðkastið og hafa nýir símar runnið sem á færibandi út úr dyrum fyrirtækisins. Þetta er svosem eðlileg þróun enda heltist fyrirtækið eftirminnilega úr lestinni í harðri samkeppni við hina risana á farsímamarkaðnum. Nýjustu græjurnar eru símar í Lumia-seríunni sem keyra á Windows-stýrikerfinu frá Microsoft. Símar úr þessari seríu eru vissulega misgóðir og stýrikerfið ekki hafið yfir gagnrýni. Sem fyrr eru það fylgihlutirnir sem færa Nokia-símana yfir á annað plan. Sjálfur hef ég lengi leitað eftir síma með góðri myndavél. Þar skoraði Nokia Lumia 920 hátt í prófun Viðskiptablaðsins í fyrra.

Nýjustu skrefin hjá Nokia ættu að kæta þá sem vilja síma með góðri myndavél. Sá nýjasti þeirra, Nokia 1020 er t.d. með ótrúlegri upplausn, hann flaggar 41 MP myndavél sem skilar fáránlega skörpum myndum. Þessi sími hefur hins vegar ekki enn skilað sér til Norðurlandanna.

Nýjasti síminn frá Nokia sem hefur skilað sér hingað er Nokia Lumia 925. Hann var kynntur í sumar. Síminn er af svipuðum meiði og Lumia 920. Hann keyrir á sama stýrikerfi og forverinn, þ.e. Windows 8, og að mörgu leyti sambærilegur við nýjustu síma keppinautanna, þ.e. Galaxy S4 frá Samsung og iPhone 5 frá Apple. Nokia Lumia 925 keyrir á 1,5 GHz tvíkjarna Snapdragon S4-örgjörva, skjárinn er af svipaðri stærð og og búkurinn að mestu líka. Þá er innra minni hans 16 GB og vinnsluminnið 1 GB sem er helmingi minna en í Galaxy S4. Munurinn á 925-týpunni og 920 felst aðallega í tvennu: þyngd og myndavél.

Nokia Lumia 920 var næstum 200 grömm samanborið við þann nýja sem er 139 grömm. Það er ögn í þyngri kantinum við hlið Samsung Galaxy S4 sem er tæpum 10 grömmum léttari. iPhone 5 frá Apple er svo enn léttari, 112 grömm. Hann er á móti með minni skjá en hinir tveir. Mestu munar um í nýja símanum að þráðlausa hleðslumöguleikanum hefur verið sleppt auk þess sem kassinn utan um hann er út áli og plasti. Það léttir hann nokkuð.

Stútfull appaverslun

Síminn keyrir eins og fleiri Lumia-símar Nokia á stýrikerfinu Windows 8 frá Microsoft. Nöldurseggir hafa gagnrýnt stýrikerfið og sagt það gera útslagið, það sé svo lélegt að ekki taki því að fá sér síma sem keyri á því. Ég hafði reiknað með að bætast í hópinn. Það kom mér hins vegar á óvart hversu notendaumhverfið er þægilegt. Smávægilegar tilfæringar þarf til að opna verslunina. Ólíkt því sem sumir segja er þar vöruskortur lítill ef nokkur. Í einstaka tilvikum saknaði ég forrita þar. Á hinn bóginn voru til staðgenglar sem gerðu sama gagn.

Enn betri myndavél

Mikið hefur verið gert út á myndavélina í nýjustu símum Nokia í Lumia-seríunni. Vélin var góð í Lumia 920 en enn betri í nýjasta símanum. Linsan er sem fyrr frá Carl Zeiss. Ekki er um eina linsu að ræða heldur sex fljótandi sem Nokia hefur unnið með síðustu misserin og skilar PureView-tækni fyrirtækisins frá sér lítið sem ekkert hreyfðum myndum og góðum myndskeiðum. Nokia Lumia 925 stóð undir væntingum. Myndavélin skilaði af sér frábærum og skýrum myndum með góða ljósblöndun (e. white balance). Nýjasti hugbúnaðurinn sem Nokia-liðar kynntu í sumar er jafnframt skemmtilegur. Sá heitir Nokia Pro Cam og er aðskylt apparat frá íföstum hugbúnaði. Með þessum hugbúnaði er hægt að handstilla allt eins og í stafrænni myndavél í stærri kantinum en á einfaldari hátt en í öðrum myndavélasímum. Eftir að ég uppgötvaði græjuna festi ég valmöguleikann og hætti að nota gamla hugbúnaðinn sem hefur fylgt Lumia-símunum. Þessi hugbúnaður er víst fáanlegur í fleiri síma Nokia og mæli ég með honum.

Gæði myndavélarinnar komu hvað best fram í myndum sem teknar voru við aðstæður þar sem ljós var af skornum skammti , s.s. seint að kvöldi. Þá skilaði hún sömuleiðis sínu þegar allt umhverfið var á hreyfingu, meira að segja náði ég góðum myndum þegar ég tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu afturábak til að ná myndum af syni mínum taka þátt í því. Kostir myndavélarinnar sjást hvað best á myndinni af bílunum á Miklubraut, sem voru á fleygiferð þegar ég smellti af. Myndirnar má sjá hér að neðan og hefur ekkert verið átt við þær.

Síminn kostar tæpar 100.000 krónur sem er sambærilegt ef ekki minna en verðmiðinn á nýjustu símum keppinauta Nokia.

Í hnotskurn: Nokia Lumia 925 er fantaflottur sími. Stýrikerfið skilar sínu hratt og vel. Myndavélin er sem fyrr rúsínan í pylsuendanum.  

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður Viðskiptablaðsins.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Nokia  • Nokia Lumia 925