*

Tölvur & tækni 3. október 2014

Nokia Lumia 930: Mikið um dýrðir, lítið um efndir

Nokia Lumia 930 er frábær á pappír en ekki eins góður í notkun. Frábær skjár og myndavél ná ekki að vega upp aðra galla.

Jóhannes Stefánsson

Viðskiptablaðið sagði frá því þegar nýjasta útgáfa Nokia Lumia kom á markað í júlí. Símans hafði verið beðið með eftirvæntingu en af mörgum er síminn talinn vera fyrsti „alvöru“ keppinautur flaggskipa Apple, Samsung og fleiri framleiðenda. Það kom því að sjálfsögðu ekki annað til greina en að prófa hann. Það er rétt að taka fram að blaðamaður Viðskiptablaðsins á sjálfur iPhone 5 og því liggur beinast við að bera Lumia saman við þann síma þar sem það á við.

Nýjum Lumia er pakkað í snyrtilega og fyrirferðalitla pakkningu. Þegar síminn er tekið úr kassanum kemur strax í ljós að þó að hann sé snyrtilegur er hann hvorki fyrirferðalítill né látlaus, að minnsta kosti ekki í eiturgrænni útgáfu eins og undirritaður fékk í hendurnar.

Með kraftpúst og spoilerkit

Síminn er töluvert stærri heldur en iPhone 5, með 5 tommu skjá borið saman við 4 tommur. Hann fæst líka appelsínugulur, hvítur og svartur. Stærðin er auðvitað smekksatriði og stór sími er betri en lítill í sumu og öfugt, þó að stærri símar séu heldur að ryðja sér til rúms um þessar mundir. Eiturgræni Lumia síminn fékk töluverða athygli og á meðan hann var í prófun og margir sem vildu vita meira um hann. Útlit og hönnun vakti því nokkra athygli.

Innvolsið í Lumia 930 er tilkomumikið. Þegar iPhone 5 og Lumia 930 eru bornir saman kemur í ljós að vélbúnaðurinn í þeim síðarnefnda er töluvert öflugari. Vinnsluminnið er tvöfalt meira, örgjörvinn öflugri og myndavélin er 20 megapixla, borið saman við 8 megapixla í iPhone 5 svo eitthvað sé nefnt. Fyrirfram mátti búast við því að Lumia 930 myndi skilja iPhone 5 eftir í rykinu. Þegar á hólminn var komið var það þó alls ekki það sem gerðist.

Vængstífður af flottheitum

Til að nefna dæmi þá hafa aðdáendur Windows síma hafa oft lýst því hversu hrifnir þeir eru af myndavélinni á símanum. Í tilfelli Lumia 930 var sérstaklega áberandi hversu lengi myndavélin var að ræsa sig og hversu fáa ramma hún gat tekið á sekúndu. Í þeim samanburði kom Lumia því nokkuð dapurlega út miðað við Iphone 5. Ég lenti í því í þónokkur skipti að vilja ná mynd af einhverju en augnablikið var farið áður en síminn smellti af. Á móti kemur að myndirnar sem eru teknar í Lumia 930 eru sennilega með því besta sem gengur og gerist í farsímum í dag.

Í þann tíma sem ég notaði Lumia hafði ég það oft á tilfinningunni að ég væri að bíða eftir honum, sem er ekki góðs viti fyrir farsímaframleiðanda í harðri samkeppni um markaðshlutdeild á snjallsímamarkaði. Sum forrit opnuðust hægt og það var ekki eitthvað sem ég átti að venjast með iPhone 5. Þegar ég prófaði símana síðan hlið við hlið voru þessar grunsemdir staðfestar – gamli síminn var í flestum tilfellum fljótari að opna forrit og framkvæma aðgerðir. Vafrinn í Lumia símanum var reyndar töluvert fljótari af einhverjum ástæðum. Það eru mistök hjá Windows að reyna að gera allar aðgerðir í símanum mjög „hreyfðar,“ sem dregur úr hraðanum og vængstífir öflugan vélbúnaðinn í símanum.

Lítið að frétta í Windows Store

Síminn er þó ekki alslæmur. Eitt af því besta er skjárinn. Upplausnin er í full HD og litirnir eru hreinlega frábærir. Nokia hefur algjörlega neglt þennan þátt í símanum. Það er allt annað að horfa á sjónvarpsefni og myndbönd og skoða myndir í símanum, bæði vegna þess að skjárinn er nokkuð stór en einnig út af myndgæðunum. Af einhverjum ástæðum fannst mér þó eins og ég væri með tíu þumalputta þegar ég var að reyna að skrifa textaskilaboð – eitthvað sem ég kannaðist ekki við með iPhone 5.

Einn helsti veikleiki Lumia felst í því sem hann er – Windows sími. Notar þú Instagram? Sæktu þá prufuútgáfuna. Hefuru gaman af Snapchat? Ekki til í Windows Store. Google Maps? Nei, en þú getur notað Bing Maps (sem er skelfilegt í farsímaútgáfu.) Youtube appið? Neibb. Ekki láta þér detta í hug að spyrja um Tinder. En hey, Windows Store er allavega með Indriða-appið!

Það er hérna sem Windows símarnir lenda undir í samkeppninni við Apple og Android. Þó að Windows símar geti gert flest sem hinir símarnir gera, og stundum meira, þá þarf það einhvernveginn alltaf að vera aðeins of mikið vesen til að „venjulegir notendur“ nenni að standa í því. Þó að Nokia Lumia sé vel hannaður sími með mjög góða myndavél og skjá, þá vantar símann punktinn yfir i-ið.

Samantekt: Eftir að hafa notað símann í rúmar þrjár vikur var ég farinn að sakna gamla símans aftur. Ekki skipta yfir í Lumia 930 strax ef þú getur ekki verið án smáforritana í símanum þínum. Ef þú horfir hinsvegar mikið á myndbönd og finnst skipta máli að hafa góða myndavél kemur Nokia Lumia 930 vel til greina.

Síminn fæst í þessari eiturgrænu útgáfu, en einnig í hvítum, svörtum og appelsínugulum lit.

Eins og sést fæst síminn í eiturgrænni útgáfu.

Tekið á myndavélina í Nokia Lumia 930.

 

La Sagrada familia, Barcelona.

Stikkorð: Nokia Lumia  • Nokia Lumia 930