*

Tölvur & tækni 11. desember 2013

Nokia sagt þróa Android-síma

Ekki er talið víst hvað verði um Android-síma sem Nokia er sagt vera að þróa eftir yfirtöku Microsoft.

Finnski farsímaframleiðandinn Nokia er sagður vera að vinna að gerð snjallsíma sem keyrir á Android-stýrikerfinu frá Google. Símar fyrirtækisins hafa fram til þessa ýmist keyrt á Symbian-stýrikerfi sem Nokia þróaði en undir það síðasta Windows-kerfi Microsoft, sem nýverið keypti Nokia með manni og mús. 

Netmiðillinn The Verge segir Nokia hafa unnið að þróun Android-símans um nokkurt skeið. Hann beri vinnuheitið Normandy og verði í flokki með ódýrari símum fyrirtækisins. Greinarhöfundur bendir þó á að óvíst sé hvað verði um símann eftir kaup Micorosoft á Nokia, þ.e. hvort hann komi á markað áður en kaupin ná fram að ganga og hvort Microsoft hætti við að markaðssetja hann þar sem stýrikerfið er frá keppinauti. 

Beið eftir Android-símum Nokia

Hátækni hefur um árabil verið með umboð fyrir Nokia-síma hér á landi. Fram kom í yfirlýsingu Kristjáns Gíslasonar, stjórnarformanns Hátækni sem Landsbankinn hefur nú tekið yfir, að niðursveifla Nokia hafi reynst fyrirtækinu þung í skauti og haft neikvæð áhrif á reksturinn. 

„Það var sannfæring stjórnar Hátækni að Nokia hefði styrkt stöðu sína hraðar með því að hefja einnig framleiðslu á Android snjallsíma, auk Windows síma. Til þess kom þó ekki eftir að Microsoft keypti Nokia og þykir okkur því ljóst að það muni taka einhvern tíma að Nokia nái vopnum sínum,“ sagði í yfirlýsingunni. 

Stikkorð: Android  • Nokia  • Windows  • Hátækni