*

Tölvur & tækni 18. júní 2014

Nokia Lumia 1520: Skringilega stór en skemmtilegur pakki

Blaðamaður Viðskiptablaðsins hefur prófað nýjasta símann frá Nokia.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nokia hefur mokið út nýjum símum af færiböndum sínum síðastliðin Lumia-serían var kynnt til sögunnar síðla árs 2011. Nýjasti síminn í dýrari kantinum í seríunni er hinn risavaxni Nokia Lumia 1520, sem kom á markað á dögunum.

Hér er í raun um að ræða hálfgildings spjaldtölvu enda græjan rúmir 16 sentimetrar á hæðina og rúmir 8,5 á breiddina – skjárinn er semsagt upp á sex tommur. Þá er síminn ívið þykkari en iPhone 5 (ef eitthvað á að bera saman við Nokia Lumia 1520). Miðað við það hvað síminn var stór undraðist ég ekkert að fólk rak upp stór augu þegar ég svaraði í tækið og bar það upp að eyra. En þetta vandist ótrúlega fljótt og fljótlega fór síminn að fara vel í hendi.

Síminn virkar á allan hátt eins og aðrir Lumia- símar sem keyra á Windows-stýrikerfinu og óþarfi að fara nánar út í það hér.  Allur hugbúnaður er einfaldur í uppsetningu, lítið mál er að tengjast forritaversluninni og finna þann hugbúnað sem ég nota alla jafna. Margir hafa reyndar kvabbað undan því að ekki sé sami hugbúnaður í boði fyrir Nokia-síma og iPhone eða síma sem keyra á Android-stýrikerfinu. Langt er um liðið síðan það var og flest ef ekki allt í boði fyrir notendur síma Nokia og annarra síma. Heiti forritið ekki sama nafni er líklegt að forrit með annað heiti en sömu virkni leynist þar einhvers staðar.

Hraðvirk græja

Ef eitthvað er þá er Lumia 1530 hraðvirkari en aðrir símar. Skiptir þar mestu um 4-kjarna 2.2GHz Snapdragon 800 örgjörva í stað tvíkjarna 1,5 GHz Krait eins og knýr Nokia Lumia 1020 áfram. Þá er skjárinn geysilega flottur. Annað væri það nú, enda er hann í stærri kantinum. Þarna er kominn  IPS LCD ClearBlack í stað AMOLED PureMotion HD+ ClearBlack eins og er í Lumia 1020. Litir og upplausn er algjörlega frábær og vegur skjárinn alveg upp á móti því hvað græjan er klunnaleg sem snjallsími. 

Myndavélin í Nokia Lumia 1520 er góð og á hún það sammerkt með öðrum símum úr Lumia-seríunni í dýrari kantinum. Þarna er komin 20 MP PureView-linsu sem er reyndar dvergur við hliðina á 41 MP-linsunni í Nokia Lumia 1020. Mér fannst hún reyndar samt ekki alveg ná sömu gæðum og Lumia 925 og 1020 að kvöldlagi, jafnvel þótt bjart væri úti. Myndirnar fannst mér kornóttar og þurfti flass til að ná þeim vel ólíkt hinum símunum en þar þurfti eiginlega aldrei að nota flassið til að ná þokkalegustu mynd. Í samanburði við aðra síma stóðst myndavél Nokia Lumia 1520 allar væntingar og var á pari við myndavélina í iPhone 5S og Samsung Galaxy 5, sem nýverið kom á markað.

Það er kannski best að myndirnar tali sínu máli. Þar sést bæði gæði mynda og stærðin í samanburði við aðra síma. Hér var reyndar Nokia Lumia 1520 borinn saman við iPhone 5, sem er reyndar sambærilegur við iPhone 5S.

Í hnotskurn:

Nokia Lumia 1520 er algjörlega frábært tól fyrir þá sem vilja sameina kosti hágæða spjaldtölva og síma. Þeir sem vilja síma frekar en annað ættu að snúa sér annað og öfugt. Sem samruni beggja tækja er græjan góð. Verðið er reyndar í hærri kantinum en nokkuð á pari við dýrari græjur eða á tæpar 140 þúsund krónur. 

Nokkrar myndir

Myndirnar hér að neðan - að efstu myndinni undanskilinni - eru allar teknar með Nokia Lumia 1520. Þær eru ekkert unnar, hvorki í símanum né eftir á í tölvu. Það ætti að gefa einhverja mynd af gæðum linsunnar og myndavélarinnar. Ég bendi sérstaklega á myndina sem ég tók af skátamóti á Úlfljótsvatni. Það þarf ekki að rýna lengi í myndina til að taka eftir því að fáninn sem blaktir er allur í fókus. Myndir í farsímum gerast einfaldlega ekki betri en þetta!

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Nokia Lumia 1520