*

Tölvur & tækni 11. júlí 2013

Nokia sími með risavaxinni myndavél

Nýi Lumia 1020 síminn frá Nokia er með 41 megapixla myndavél.

Viðbrögð við nýja Lumia 1020 símanum frá Nokia hafa almennt verið jákvæð, en eftir langan aðdraganda var hulunni loks formlega svipt af nýja símanum í dag.

Myndavélin í símanum fær langmesta umfjöllun, enda er Nokia að stóla á að hún muni draga að neytendur. Í raun má halda því fram að um sé að ræða myndavél með síma, svo stór hluti er hún af pakkanum. Um er að ræða 41 megapixla myndavél, myndneminn er sérstaklega stór og sérhannaður myndvinnsluhugbúnaður Nokia á að tryggja að myndirnar verði sem allra bestar.

Linsan er, eins og í öðrum Lumia símum, frá Carl Zeiss og getur einnig tekið gleiðar myndir. Hún býður upp á þrefalda stækkun (e. zoom) auk þess sem hægt er að fókusa hana handvirkt ef notandi vill. Myndbandsupptökur eru í 1080 punkta HD upplausn með þrjátíu ramma á sekúndu.

Síminn sjálfur er með 4,5 tommu AMOLED háskerpuskjá með 1280x768 pixla upplausn og er hannaður til að minnka sólarglampa þegar hann er notaður úti við. Framan á símanum er 1,2 megapixla myndavél fyrir netspjall. Örgjörvinn er 1,5 GHz tvíkjartna Snapdragon S4 og síminn er með 32 gígabæta minni. Þrátt fyrir risamyndavélina er síminn jafnþykkur og fyrri Lumia símar.

Stikkorð: Nokia  • Snjallsímar  • Nokia Lumia 1020