*

Tölvur & tækni 19. júlí 2012

Nokia var tilbúið með snjallsíma um síðustu aldamót

Fyrrverandi yfirhönnuður Nokia fær sting fyrir hjartað í hvert sinn sem hann heyrir einhvern hrósa iPhone-símum Apple.

Frank Nuovo, fyrrverandi aðalhönnuður finnska farsímaframleiðandans Nokia, kynnti fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins um síðustu aldamót farsíma með snertiskjá og litlum forritum sem mátti nota til að spila leiki og panta vörur. Þá kynnti Nuovo sömuleiðis fyrir þeim spjaldtölvu með snertiskjá. Fyrirtækið var komið með frumgerð að símanum og tölvunni þegar bandaríski tæknirisinn Apple setti fyrsta iPhone-símann á markað í apríl árið 2007. Vörurnar frá Nokia litu hins vegar ekki dagsins ljós fyrr en nýverið en þá hafði Apple fyrir margt löngu náð ráðandi stöðu á markaðnum.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal fjallar um málið og ræðir við Nuovo þar sem hann fer í gegnum glærur frá kynningunni. Hann segist fá sting í hjartað þegar fólk hrósi tækjunum frá Apple. Nokia hefði getað verið með pálmann í höndunum. Fyrsti eiginlegi snjallsími Nokia, Communicator, leit dagsins ljós árið 1996 og þótti tæknilegt afrek. Hann eins og aðrir símar Nokia þóttu hins vegar í dýrari kantinum. Forstjóraskipti árið 2006 leiddu svo til þess að fyrirtækið hætti tímabundið að ryðja tæknibrautina og tók að einbeita sér að sölu á því sem næst hefðbundnum farsímum. 

Markaðshlutdeild Nokia á farsímamarkaði tók að hrapa eftir að Apple setti fyrsta farsíma sinn á markað árið 2007. Fyrirtækið er skuldum hlaðið og hefur Stephen Elop, nýráðinn forstjóri Nokia, unnið að því hörðum höndum að bæta fjárhagsstöðuna. Á meðal þess sem hann hefur neyðst til að gera er að ganga á gulllnámuna, þ.e. verðmætt safn Nokia á einkaleyfum fyrir eitt og annað í snjallsímatækni. Þá tók hann upp samstarf við bandaríska hugbúnaðartröllið Microsoft um þróun á stýrikerfi fyrir farsíma. Stýrikerfið keyrir Lumia-símana frá Nokia. Miklar vonir voru bundnar við símana en sala þeirra reynst mun dræmari en væntingar voru um.

Nokia tapaði 929 milljónum evra í fyrra. Það gera rúma 140 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma dróst farsímasala saman um fjórðung. Fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í morgun. Tapið nam 1,4 milljarði á tímabilinu sem er fjórum sinnum meira en í fyrra. Þá dróst sala á farsímum saman um tæp 20%. 

Umfjöllun Wall Street Journal um Nokia

Stikkorð: Nokia  • Frank Nuovo