*

Ferðalög & útivist 29. júlí 2013

Nokkur atriði fyrir fólk á leið í Disney World

Tækin bila, engir bekkir og hungraðir íkornar. Ef fólk er á leið í Disney World er betra að glöggva sig á nokkrum mikilvægum atriðum.

Fjölskylduferð í skemmtigarðinn Disney World ætti að hljóma vel í eyrum margra. Börnin orðlaus af undrun og gleði yfir töfrum skemmtigarðsins þar sem tónlist hljómar á götunum, Mikki mús og aðrar fígúrur knúsa börn og fullorðna og allir eru svo ógurlega glaðir.

En margt getur farið úrskeiðis eins og svo oft. Buzzfeed tók saman sextán atriði sem enginn segir fólki um Disney World. Eigum við að skoða nokkur?

Fáir bekkir. Yfir 17 milljónir gesta heimsækja Disney World á hverju ári svo það væri eðlilegt að það væru bekkir hér og þar fyrir fólk til að hvíla lúin bein. En svo er ekki.

Tækin bila. Rússíbanar og önnur tæki bila. Og alveg oft. Bilanirnar eru oft smávægilegar en alveg nógu miklar til að tækjunum sé lokað í heilan dag. Og það getur verið erfitt að útskýra slíkt fyrir börnum með kandífloss og mjög mikla orku.

Dýr. Dýr eins og íkornar og fuglar eru algjörlega óhrædd að borða mat gesta, heilu kjúklingabitarnir hafa horfið og það jafnvel úr höndunum á fólki sem var ekki með varann á.

Blekkingar. Stjórnendur Disney eru duglegir að láta raðir líta út fyrir að vera styttri en þær eru til að laða fólk að. Þeir fela þær á bak við veggi og byggingar svo þegar fólk heldur að það sé alveg að fara að koma að því þá kemur í ljós, þegar komið er fyrir hornið, að svo er ekki. 

Stikkorð: Vonbrigði  • Disneyworld  • Örvænting  • Svik og prettir