*

Ferðalög 12. júní 2013

Nokkur atriði sem þú vissir ekki um flug

Ekki snerta tímaritin nema með töng og læsingin á salernunum er bara upp á punt. Hér koma nokkur atriði um flug sem ekki allir vita.

Það er margt við flugferðir sem við vitum ekki. Eins og þetta með gosdósirnar. Þegar flugfreyjan opnar dós, hellir í glasið og réttir þér það. Hvað gerir hún við afganginn af gosinu? Svarið er einfalt: Það má víst biðja um alla dósina. Þú þarft bara að spyrja. 

Þetta eru þessi litlu atriði sem skipta kannski ekki höfuðmáli en fólk veltir fyrir sér. Skoðum fleiri atriði sem tekin voru saman á fréttasíðu CNN:

Salernin: Það er hægt að opna allar hurðir að salernum flugvéla að utan. Öll áhöfnin kann það og fjölmargir farþegar líka. 

Lýsing um borð: Í flugtaki og lendingu eru ljósin í vélinni slökkt svo að farþegar venjist myrkrinu ef upp kemur neyðaratvik og rýma þarf flugvélina. 

Koddar, teppi og tímarit: Vanir ferðalangar nota sjaldan teppi og kodda sem ekki eru pökkuð inn í plast vegna þess að þessir hlutir eru oft óhreinir. Og tímaritin eru sennilega skítugustu hlutirnir um borð.

Neyðarútgangur: Hver hefur ekki verið hræddur um að einhver nöttarinn um borð rífi upp neyðarútganginn í 30 þúsund fetum? En það er ekkert að óttast því það er ekki hægt.

Neyðaratvik: Ef vélin er að hrapa og þetta er búið spil þá er ekki fræðilegur að farþegar verði látnir vita: „Það síðasta sem við þurfum eru uppþot áður en við deyjum," segir flugfreyja í greininni. Og fjölmiðlamaðurinn Richard Quest hjá CNN gefur góð ráð ef óhöpp koma upp við flugtak eða lendingu: „Vertu í sokkum og skóm. Hver vill hlaupa um flugbraut sem er þakin flugvélabraki, berfættur?"

Stikkorð: Flugvélar  • Örvænting  • Praktísk ráð