*

Heilsa 5. mars 2013

Nokkur einföld ráð fyrir góðan nætursvefn

Allt of margir sofa ekki nóg og sofa ekki vel. Til eru nokkur einföld ráð til að kippa þessu í liðinn.

Góður nætursvefn er lykillinn að góðri heilsu að mati sérfræðinga. Vefsíðan stuff.no.nz tekur saman nokkur góð ráð varðandi góðan nætursvefn. Þar kemur í ljós að það sem virkar kannski vel á einn er alveg vonlaust fyrir annan. Allt er þetta einstaklingsbundið. 

Stellingin sem við sofum í skiptir höfuðmáli, segir Steven Park, höfundur bókarinnar Sleep, Interrupted, og segir að slæm stelling geti meðal annars orsakað þreytu, hausverk, brjóstsviða og bakverk. 

Bakið. Að sofa á bakinu er gott fyrir hálsinn og heldur mænunni í hlutlausri stöðu. Samt er baksvefn ekki góður fyrir þá sem þjást af öndunarsjúkdómum eða kæfisvefni. Fólk sem  situr við tölvu allan daginn ætti að forðast að sofa á bakinu því vöðvar í kringum mjaðmirnar eru stífari á skrifstofufólki og því gæti þessi stelling verið óþægileg fyrir það.

Og síðan er það koddinn: Sé hann of lágur þá lyftist hakan of mikið og liðamótin við hnakkann herpast saman og þá vaknar fólk oft með hausverk. Ef koddinn er of hár þá teygist of mikið á vöðvum á milli axlanna og hálsins. 

Maginn. Að sofa á maganum er versta stellingin fyrir hálsinn að mati Anna-Louise Bouvier, sjúkraþjálfara og höfundur Happy Body DVD seríunnar. Sumir svefnsérfræðingar segja að þetta sé þó besta stellingin fyrir fólk sem hrýtur. Aðeins 5% fólks sefur á maganum, fólk sem gerir það á mjög erfitt með að hætta því, að sögn Bouvier.

Til að létta á hálsinum er mælt með því að setja kodda langsum niður eftir maganum svo manneskjan liggi bara þrjá fjórðu á maganum. Fólk sem sefur á maganum er í meiri hættu að vakna upp en ef fólk er vant þessari stellingu og sefur vel í henni þá er ekkert sem mælir á móti henni.

Hliðin. Um 72% fólks sefur á hliðinni. Sumar rannsóknir sýna að þau sem sofa á hliðinni fái besta nætursvefninn. Í rannsókn hjá The American Journal of Gastroenterology kom í ljós að bakflæði minnkaði hjá þeim sem sváfu á hliðinni. 

Og þá að koddamálum: Mikilvægt er að hafa koddann í réttri hæð, annars er hætta á þreytu í öxlum og hálsi. Gott er að hafa tvo kodda, einn þunnan á milli eyra og axlar og annan undir höfðinu til að taka álagið af hálsinum. 

Og að lokum þá koma nokkur góð og klassísk svefnráð: 

Tæki. Sjónvarpsgláp eða tölvunotkun rétt fyrir svefninn eða inni í svefnherberginu getur valdið óróa þegar kemur að því að sofna. Gott er að hafa ekki þessi tæki inni í svefnherberginu. 

Umhverfið. Hafðu svefnherbergið hreint, fínt, dimmt og frekar svalt. 

Slakaðu á. Reynu að slaka á þegar líður að því að fara að sofa. Gott er að hafa alltaf sömu rútínuna. Ekki skipuleggja eitthvað eða hafa áhyggjur af vinnunni rétt fyrir svefninn. 

Snúðu klukkunni við. Ef þú ert andvaka er ekki gott að hafa klukkuna fyrir augunum. Snúðu henni við eða fjarlægðu hana úr herberginu. 

Leitaðu þér hjálpar. Ef ekkert hér að ofan virkar eru til sérfræðingar sem geta hjálpað til við að leysa úr vandamálum sem snúa að svefninum.

Stikkorð: Svefnvandamál