*

Tölvur & tækni 10. ágúst 2013

Norður-kóresk spjaldtölva

Á nýrri norður-kóreskri spjaldtölvu er hægt að spila sérstaka útgáfu af Angry Birds leiknum.

Spjaldtölvubyltingin hefur breiðst út um allan heim, en það sætir þó tíðindum að hún skuli einnig hafa náð til hinnar einangruðu Norður-Kóreu. Vestrænn ferðalangur í einræðisríkinu rakst þar nýlega á heimasmíðaða spjaldtölvu, sem ber nafnið Samjiyon og verðið var alveg bærilegt, jafnvirði um 25.000 kr., þó að sjálfsagt hafi fáir innfæddir utan forréttindastéttarinnar efni á henni. Spjaldið notast við Android-stýrikerfið og þykir bara furðusprækt.

Á því eru þó allnokkrir annmarkar, sá helstur að það tengist ekki netinu, heldur aðeins Kwangmyong, sem er hið leyfilega net norður-kóreskra stjórnvalda, en efni þess snýst að mestu um mannkosti leiðtoga landsins. Á spjaldinu eru nær engin af vinsælustu forritum heims, en á hinn bóginn er þar norður-kóresk útgáfa af hinum heittelskuðu Angry Birds. Menn geta nærri hvaða svín þeir bomba.

Stikkorð: Norður-Kórea