*

Ferðalög & útivist 6. febrúar 2013

Gestir vaktir upp um miðja nótt til að sjá norðurljósin

Ferðamannaiðnaðurinn hefur brugðist við miklum áhuga erlendra ferðamanna á norðurljósum með framboði á ýmiskonar þjónustu.

Lára Björg Björnsdóttir

„Það kemur fyrir að gestir hlaupi út á náttfötunum um miðja nótt í miklu frosti. En þeir láta sig hafa það því þeir eru svo spenntir fyrir norðurljósunum,“ segir Stella Rúnarsdóttir í móttökunni á Hótel Rangá. Hún segir hótelið bjóða upp á svokallaðan norðurljósalista.

Hótelgestir skrá sig á listann og síðan er fólk látið vita ef sést til norðurljósa. Oft er fólk því vakið um miðja nótt eða truflað í miðjum kvöldverði: „Fólk stekkur frá borðum þegar norðurljósin koma í ljós og þá bara bíður maturinn eftir þeim.“ Stella segir Íslendinga ekki eins spennta fyrir því að láta vekja sig um miðja nótt en það komi fyrir að þeir skrái sig á listann.

Ferðamannatíminn á Íslandi hefur lengst um marga mánuði og er ekki lengur bundinn við sumartímann. Vetrarferðir til Íslands njóta vinsælda sem aldrei fyrr. 

„Það er farið á hverju kvöldi í norðurljósarferð ef það er einhver von að sjá norðurljós,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Icelandair hótelanna.

Icelandair hótelin hafa einnig verið að bjóða upp á fjögurra nátta norðurljósaferðir: „Í þessum ferðum er gist tvær nætur í Reykjavík og tvær nætur á Akureyri. Auðvitað er margt meira við þessar ferðir en bara norðurljósin enda kemur fyrir að þau sjáist ekki. Við leggjum mikið í þessar ferðir og fólk upplifir Ísland með öðrum hætti yfir vetrartímann. Siðan veitum fólki leiðsögn hvernig skal taka ljósmyndir af norðurljósunum,“ segir Magnea.

En ætli einhverjir Íslendingar skelli sér í fjögurra nátta norðurljósaferðina?

„Nei, megnið af ferðamönnunum koma frá Bandaríkjunum. Næst stærsti hópurinn kemur frá Bretlandi og hinir frá löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi.“ 

Magnea segir þessa ferðamenn mjög fróða um Ísland og íslenska náttúru: „Þeir hafa lesið sér alveg gríðarlega vel til um Ísland og eru mjög fróðleiksfúsir, þeir spyrja út í alla mögulega hluti.“