*

Matur og vín 17. nóvember 2017

Norski sendiherrann fagnaði makríl

Makrílveislan fór fram í Norræna húsinu í gær.

Konunglega norska sendiráðið á Íslandi og John Lindsay hf. buðu til makrílsveislu í Norræna húsinu í gær. Tilefnið var að hinn vinsæli norski Stabburet makríll er kominn á markað hér á landi. Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, hélt stutta tölu og sagðist fagna því að norskur markíll væri nú loks fáanlegur í verslunum á Íslandi. Hún sló á létta strengi og sagði það á margan hátt merkilegt miðað við allt sem gengið hefur á í samskiptum þjóðanna vegna makrílsins. Hún sagðist einnig ánægð að heyra að Íslendingar tækju vel í norska makrílinn.

Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari veitingastaðarins Aalto í Norræna húsinu, er mikill aðdáandi makríls og hann framreiddi hann með miklum glæsibrag í veislunni. Makríll er vinsælasta áleggið á Norðurlöndunum og mjög vinsælt víðar í Norður-Evrópu. 

,,Salan á Stabburet makrílnum hefur farið mjög vel af stað og ljóst að landsmenn kunna vel að meta makrílinn sem er gæðahráefni og mjög hollur þar sem hann hefur Omega 3. Þetta er bragðgóður heilsubiti,” segir Stefán S. Guðjónsson, forstjóri heildvöruverslunarinnar John Lindsay, sem flytur makrílinn inn. Stabburet makrílinn fæst í fjórum tegundum; makrílflök í tómat og basil eða tómatsósu og grófhakkaður í tómatsósu eða salsa.

Jordi Peidro, Peter Lowzow, Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, og Stefán S. Guðjónsson, forstjóri John Lindsay.