*

Hitt og þetta 3. júní 2013

Norskur hjólreiðakappi í Blálónskeppni

Hjólreiðakappinn Martin Haugo veitir ráðgjöf um fjallahjól og hjólreiðar fyrir Blue Lagoon Challenge-hjólreiðakeppnina á laugardag.

„Þetta verður spennandi og krefjandi keppni og tækifæri sem ég gat ekki hafnað,“ segir norski hljóðreiðamaðurinn Martin Haugo. Hann er úr hinum öfluga fjallahjólaliði Merida og tekur þátt í hinni árlegu Blue Lagoon Challenge sem er ein stærsta hjólreiðahátíð ársins. Keppnin fer fram laugardaginn 8. júní og verður þetta í 18. skipti sem hún er haldin. Fram kemur í tilkynningu um keppnina að þátttökumet var slegið í fyrra en þá tóku rúmlega 400 keppendur þátt.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Bláalónsþrautin er fyrst og fremst hjólreiðamót fyrir almenning og tilvalin fyrir fólk sem vill reyna aðeins á sig og njóta góðrar útiveru og fagurs landslags á Reykjanesi í leiðinni og njóta Bláa Lónsins að keppni lokinni. Bláalónsþrautin er 60 km. löng. 

Daginn fyrir keppnina mun Haugo verða í verslun Ellingsen í Reykjavík, sem er umboðsaðili Merida hjólanna á Íslandi, föstudaginn 7. júní milli klukkan 14 og 18 og veita fólki ráðgjöf um hjól og hjólreiðar.