*

Tölvur & tækni 26. maí 2016

Nota disklinga í kjarnavopnin

Bandaríska varnarmálaráðuneytið notast enn við disklinga í kjarnavopnakerfum sínum.

Meira en 50 ár hafa liðið frá því að disklingar voru fyrst kynntir til sögunnar. Frá því að tæknin var fyrst tekin í not hafa skilvirkari og smágerðari gagnageymsluaðferðir verið kynntar til sögunnar, og fæstir nota disklinga nú til dags - en ekki allir.

Sum fyrirtæki hafa haldið í notkun sína á disklingum. Skoðun þeirra er einfaldlega sú, að sé eitthvað nothæft, þá sé óþarfi að gera á því lagfæringar. Iðnfyrirtæki sem reka gamlar verksmiðjur á borð við tréskurðarsmiðjur og saumavélar í stærri kantinum hafa enn not af disklingnum.

Þó er ein stofnun sem notar disklinginn enn frábrugðin hinum. Sú stofnun er varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Disklingar og ævafornar IBM-tölvur eru enn notaðar til að virkja og stýra kjarnavopnakerfum Bandaríkjamanna. Ástæðurnar fyrir því eru fjölþættar.

Til að mynda gildir sama yrðing um að óþarft sé að lagfæra það sem ekki er bilað jafnt um kjarnavopnastýringarkerfi sem og iðnaðarverksmiðjur - en auk þess er ákveðið öryggi falið í notkun disklingsins, sem ótengdur er veraldarvefnum og öllum þeim hættum sem þar kunna að leynast.

Tölvuþrjótar geta ómögulega brotið sér leiðir inn í kjarnavopnastýringarkerfi sem eru ótengd veraldarvefnum og notast við kerfi sem eru svo ævaforn að tölvur þrjótanna geta varla með nokkru móti átt við þau samskipti. 

Tölvukerfin, þótt virki vel, eru nú í uppfærsluferli, og miðað er að því að koma nýjum og stafrænum kerfum fyrir á næstu árum. Það var víst orðið ærið kostnaðarsamt að viðhalda gömlu tölvunum - en það kostar skattgreiðendur um 6,7 þúsund milljarða króna árlega að viðhalda gömlum ríkiskerfum um Bandaríkin öll.