*

Tölvur & tækni 22. ágúst 2014

Notendur nýja Já.is appsins nálgast 50 þúsund

Já.is appið hefur vermt efstu sæti topp lista yfir vinsælustu íslensku öppin bæði á iTunes og Google Play.

Nýja Já.is appið sem kom út í vor nálgast nú þann áfanga að hafa verið sótt 50 þúsund sinnum. Það samsvarar því að um 20% landsmanna á aldrinum 18-65 ára hafi sótt appið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Já.is. 

Appið geymir upplýsingar um 94% landsmanna en áður hefur Já gefið út appið Já Núna sem gerir notendum kleift að sjá hver er að hringja áður en símtali er svarað. Á hverjum einasta degi eru hringd um 2000 símtöl til einstaklinga og fyrirtækja úr appinu og því til viðbótar eru send fjölmörg SMS og vegvísanir gefnar.

Ásamt því að geta fundið upplýsingar um símanúmer er einnig hægt að hringja, senda SMS skilaboð eða tölvupóst, skoða staðsetningu á korti, fá vegvísun, finna afgreiðslutíma, skoða samfélagsmiðla og umsagnir um fyrirtæki í gegnum appið. Appið hefur vermt efstu sæti topp lista yfir vinsælustu íslensku öppin bæði á iTunes og Google Play frá útgáfudegi og miðað við hraða dreifingu síðustu misseri má búast við að fjöldi þeirra sem nota appið muni á endanum telja yfir 100.000 manns. Appið er í boði fyrir Android og iPhone síma

Stikkorð: app  • Já.is  • Já.is appið