*

Menning & listir 8. mars 2014

Núna og aftur núna og núna

Vendipunktur er ný sýning eftir Kristin E. Hrafnsson í Hverfisgalleríi.

Kári Finnsson

Þú hefur að öllum líkindum séð verk Kristins E. Hrafnssonar án þess að vita af því. Á víð og dreif um borgina er hægt að rekast á þau og mörg hver vísa til staðarins og hvernig við upplifum umhverfi okkar. Á nýrri sýningu Kristins, Vendipunktur, í Hverfisgalleríi er að finna ný verk eftir hann sem vísa á ólíkan hátt til þess hvernig manneskjan staðsetur sig.

Siglingafræðin og staðsetning mannsins

„Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig maður horfir á heiminn og staðsetur sig í honum sem manneskja. Siglingafræði finnst mér áhugaverð leið til að nálgast þetta viðfangsefni. Í henni skiptir sjónarhornið miklu máli – hvernig maður horfir á hlutina. Er horft út frá miðjunni eða inn að henni? Hver er staða manns í því samhengi og hvernig hefur sjónarhornið áhrif?“ spyr Kristinn.

Hann heldur áfram:

„Þessi hugsun leiðir mann líka að því sem kalla má einfalda eða jafnvel óumflýjanlega atburði þar sem eitt hefur áhrif á annað. Það er einhver orsök og einhver afleiðing í hverjum atburði og þannig heldur þetta ferli áfram. Það er setning á sýningunni sem fjallar um þetta: NÚNA OG AFTUR NÚNA OG NÚNA. Sýningin snýst kannski um það að horfa og fylgjast með – að vera með opin augun og sjá að allt er á hreyfingu. Þetta eru því verk um heiminn, en ekki endilega raunsönn mynd af honum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.