*

Bílar 9. ágúst 2020

Nútímaleg tilvísun í söguna

Land Rover Defender, gamli grófi landbúnaðarjeppinn, hefur gengið í endurnýjun lífdaga í nýrri kynslóð.

Guðjón Guðmundsson

Það hefur lengi verið beðið eftir nýjum Defender með eftirvæntingu, eða allt frá því að tilkynnt var fyrir um það bil fimm árum að uppfæra ætti næstum þetta forsögulega ökutæki og nútímavæða það. Forveri Defender hét einfaldlega Land Rover og var framleiddur í seríu I, II og III á árunum 1948 til 1983. Þá fæddist Defender, skilgetið afkvæmi með sömu genauppbyggingu.

Tímans tákn

Fyrri gerð Defender hafði sem sagt verið á markaði í 32 ár árið 2015 þegar hönnun bílsins var dæmd algjörlega úreld á grunni Evrópureglna meðal annars með tilliti til öryggis gangandi vegfarenda. Land Rover vissi sem var að það varð að nútímavæða bílinn en gæti orðið á kostnað vinsælda þeirra sem finnst það landráð að breyta hluta sögunnar.

Þegar Land Rover var í eigu BMW og síðar Ford (2000-2008) vildu báðir framleiðendur afleggja gamla Defender og teikna nýjan bíl. Ekkert varð af því. Það liðu svo fimm ár þar til bíll var aftur framleiddur með þessu nafni. Með fullkominni virðingu fyrir sögunni verður að segjast að nýr Defender býr auðvitað yfir mun meiri þokka og er satt best að segja einhver flottasta jeppayfirbyggingin á markaðnum í dag. Hann öskrar á mann að keyra sig og keyra sig út!

Þungur, sterkur, lipur

Prófaður var einmitt Defender 110 Base útfærslan sem er grunnútfærsla bílsins sem kemur með ríkulegum grunnútbúnaði sem dugar langflestum. Það er líka kannski einn galli við þennan ágæta bíl hve vel búinn hann er í ódýrustu útgáfu sem gerir það að verkum að ekki dugar að punga út minna en 12.790.000 kr. fyrir grunngerðina, Defender 110 Base. En þá fæst líka næstum allur pakkinn. Hann kemur með öflugri 2ja lítra dísilvél (240 hestöfl í gegnum átta þrepa sjálfskiptingu), með aldrifi með millikassa með háu og lágu drifi, loftpúðafjöðrun og Terrain Response sem menn þekkja vel úr Discovery t.d.

En þrátt fyrir að vera með sambyggða yfirbyggingu og grind vegur hann um 2.300 kg og gamli Defender með sína stálstigagrind er nokkur hundruð kílóum léttari. Enda er nýr Defender umtalsvert stærri og meiri í sniðum, með nýjum undirvagni sem þolir meiri raun en aðrar gerðir framleiðandans og auk þess kemur hann á stálfelgum í grunngerðinni, sem er vinaleg tilvísun í söguna en þyngir auðvitað bílinn.

Notagildið og torfærugeta

Þrátt fyrir stærð og þyngd er Defender lipur bíll í borginni. Hann er 5.018 mm langur og því rúmum 20 cm lengri en Discovery. 2ja lítra dísilvélin skilar snurðulausu viðbragði; hröðunin er um 9 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Ökumaður hefur góða yfirsýn úr bílnum og hefur allt til alls í stórum leiðsöguskjánum fyrir miðju mælaborði sem hann stýrir auðvitað með aðgerðarrofum í stýrinu.

Bíllinn er rúmgóður. Hönnunin að innan er dálítið gróf en um leið vönduð og náttúrulega stórt stökk fram á við miðað við gamla bílinn. Stór hilla ofan við mælaborð minnir enn dálítið á notagildið sem er leiðarstefið í hönnun nýja bílsins. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Land  • Rover  • Defender