*

Tölvur & tækni 2. júlí 2019

Nvidia uppfærir skjákortalínuna

Miklar framfarir hafa orðið í reiknigetu skjákorta nýverið á sama tíma og verð hefur lækkað.

Júlíus Þór Halldórsson

Tæknirisinn Nvidia – sem hannar og framleiðir skjákort – kynnti í dag nýja og öflugri „Super“ útgáfu af öllum helstu skjákortum í GeForce RTX vörulínunni: 2060, 2070 og 2080. Nýju kortin verða um 15% öflugri en hefðbundnu útgáfurnar, en á sama eða litlu hærra verði. The Verge segir frá.

2060 Super kortið verður 50 bandaríkjadölum dýrara en 2060 á um 400 dali, en verð 2070 Super og 2080 Super verða óbreytt frá fyrirrennurum þeirra, 500 og 700 dalir.

Skjákortsmarkaðurinn hefur verið að jafna sig eftir að gríðarleg eftirspurn eftir þeim fram eftir síðasta ári, til að grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin, þrýsti upp verðinu. Þegar verst lét voru skjákortshillur raftækjaverslana víðast hvar tómar, og jafnvel notuð kort voru seld á mun hærra verði en listaverð nýrra korta.

Samhliða verðfalli Bitcoin róaðist markaðurinn þegar leið á síðasta ár og verðin tóku að lækka, og Nvidia kynnti nýja kynslóð af kortum síðasta haust. Með uppfærslunni sem tilkynnt var í dag án verðhækkunar fyrir dýrari tvö kortin heldur kostnaður tölvuleikjaáhugamanna áfram að lækka. Sem dæmi er RTX 2070 Super kortið öflura en 1080 Ti – öflugasta kort síðustu kynslóðar, sem gekk kaupum og sölum á um 1500 dali þegar mest lét – þrátt fyrir að kosta aðeins þriðjung af því.

Sé horft til verðlagningar hér heima kostar RTX 2060 í kring um 60 þúsund, og RTX 2070 er á um 90 þúsund.

Næsta stóra uppfærsla mun svo koma einhverntímann á næsta ári, en lítið hefur verið sagt opinberlega um þá kynslóð enn sem komið er. Nú er því prýðistími til að uppfæra skjákortið, en þess má geta að verð Bitcoin braut í lok síðasta mánaðar 10 þúsund dala múrinn í fyrsta sinn frá því í janúar á síðasta ári.

Stikkorð: skjákort  • Nvidia  • Geforce