*

Hitt og þetta 16. nóvember 2005

Ný bylgja í herferð gegn ólöglegri dreifingu tónlistar

Samtök hljómplötuútgefenda í heiminum hafa hafið mikla herferð gegn ólöglegri dreifingu tónlistar og tilkynnt um málshöfðun á hendur 2.200 einstaklingum fyrir að hafa hlaðið upp tónlist á svokölluðum "p2p" skráaskiptiforritum. Mál hafa verið höfðuð í fimm nýjum löndum í Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku; Svíþjóð, Sviss, Argentínu, Hong Kong og Singapúr. Meintir brotamenn eiga yfir höfði sér sektir að upphæð 3.000 dollarar, eða meira, en meirihluti þeirra mun vera karlmenn á þrítugsaldri.

Með þessari nýjustu bylgju mála er fjöldi þeirra orðinn 3.900 í 16 löndum auk Bandaríkjanna, m.a. Íslandi. Þetta er fjórða bylgjan síðan þessi alþjóðlega herferð hófst í mars árið 2004 og beinist gegn notendum allra "p2p" forrita, eins og FastTrack (Kazaa), Gnutella (BearShare), eDonkey, DirectConnect, BitTorrent, WinMX og SoulSeek.

Fyrir viku gerðu plötuútgefendur í Bandaríkjunum og "p2p" þjónustan Grokster samkomulag og á síðustu mánuðum hafa dómstólar víða komist að þeirri niðurstöðu að slík fyrirtæki beri ábyrgð á ólöglegri dreifingu tónlistar, að því er segir í fréttatilkynningu frá IFPI, heimssamtökum plötuútgefenda. Dómar hafa fallið í þá veru í þremur heimsálfum síðan í júní -- gegn Grokster í Bandaríkjunum, Kazaa í Ástralíu, Soribada í Kóreu og Kuro í Tævan.