*

Sport & peningar 27. júlí 2019

Ný Evrópukeppni fyrir íslensku liðin

Liðin í íslenska karlafótboltanum munu taka þátt í nýrri Evrópukeppni eftir tvö ár.

Talsverðar breytingar eru yfirstandandi á Evrópukeppnum UEFA. Erfiðara varð fyrir íslensk lið að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir breytingar sem gerðar voru fyrir síðasta keppnistímabil. Liðin sem komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gegnum forkeppni fækkaði úr tíu í sex. Breytingarnar voru gerðar vegna þrýstings frá stærstu liðum Evrópu sem hafa hótað því að segja skilið við Evrópukeppnir á vegum knattspyrnusambands Evrópu, UEFA og stofna eigin ofurdeild. Frá og með árinu 2021 á svo að stofna nýja Evrópukeppni sem gengur undir vinnuheitinu Evrópudeildin 2.

Keppnin á að gefa liðum frá lægra skrifuðum deildum innan Evrópu tækifæri til að ná árangri í Evrópukeppni. Þetta mun hafa í för með sér að eitt íslenskt lið fer í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en þrjú íslensk lið fara í forkeppni Evrópudeildarinnar 2. Frá og með árinu 2024 eru uppi hugmyndir um að loka enn frekar að aðgang annarra en stærstu liðanna að Meistaradeildinni. UEFA hefur til skoðunar að 24 af 32 liðunum sem taki þátt í Meistaradeildinni verði tryggð sæti í Meistaradeildinni að ári að því er AP greindi frá í maí. Þau fjögur lið sem komist í undanúrslit Evrópudeildarinnar fái einnig sæti í Meistaradeildinni að ári. Eftir standi þá einungis fjögur sæti fyrir önnur lið innan Evrópu. Samhliða því verði liðum í hverjum riðli Meistaradeildarinnar fjölgað úr fjórum í átta sem tryggi liðum fjórtán leiki í Meistaradeildinni í stað sex nú. Ljóst er að þetta mun þrengja verulega að möguleikum liða frá minni deildum Evrópu að komast að í Meistaradeildinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér