*

Bílar 15. desember 2016

Ný fimma á leiðinni

BMW mun setja nýja 5 seríu á markað á næstunni en sjö ár eru síðan núverandi kynslóð bílsins kom á götuna.

Þessi voldugi lúxusbíll frá bæverska bílaframleiðandanum hefur verið vinsæll í tímanna rás en 5 serían kom fyrst á markað árið 1972.

Nýr BMW 5 er fallegur og klassískur í hönnun eins og við er að búast frá lúxusbílaframleiðandanum. Á þeim bænum eru menn ekki að breyta hlutunum að óþörfu enda kannski ekki þörf á því þegar hlutirnir eru vel gerðir eins og raunin er hjá BMW.

Framendinn á fimmunni líkist nú meira litla bróður þristinum en þessir bílar hafa verið líkir í hönnun og búnaði sérstaklega núverandi kynslóð.

Nýja fimman verður í boði í nokkrum vélarútfærslum m.a. með 190 hestafla 520d dísilvél, sex strokka 265 hestafla dísilvél og einnig með nokkrar 265 til 465 hestafla bensínvélar.

Bíllinn mun svo fást með tengiltvinnvél sem verður 530e vél. Á rafmótornum einum verður drægið í þeim bíl um 45 km samkvæmt upplýsingum frá BMW.

Nýr BMW 5 er 36 millimetrum lengri en forverinn, sex millimetrum breiðari og tveimur millimetrum hærri. Hjólhafið hefur verið aukið um 7 millimetra og mælist 2,975 metrar.

Skilvirkni bílsins er sögð vera meiri en áður því loftmótstaðan er 10% minna en á forveranum.

Stikkorð: BMW 5  • lúxusbíll