*

Tölvur & tækni 7. september 2012

Ný háskerpuútgáfa af Kindle Fire á markað

Amazon kynnti í gær nýjar útgáfur af Kindle Fire spjaldtölvunum, sem munu nú fást í tveimur stærðum.

Amazon kynnti í gær nýjustu útgáfurnar af Kindle spjaldtölvunum og lesbrettunum. Mesta athygli vöktu Kindle Fire spjaldtölvurnar, en Kindle Fire hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því að tölvan kom fyrst út í fyrra. Grunntölvan, hin sjö tommu Kindle Fire, hefur verið uppfærð og er nú með háskerpuskjá og myndavél. Þá segir Amazon að með nýrri tækni sé hin þráðlausa nettenging í tölvunni mun hraðari en áður og er því haldið fram að tengingin sé 40% hraðari en í iPad spjaldtölvu Apple. Að lokum hefur geymsluminnið í tölvunni verið aukið úr 8 gígabætum í 16 og örgjörvinn uppfærður. Þessi nýja útgáfa af Kindle Fire mun kosta 199 dali, en eldri útgáfan hefur verið lækkuð í um 160 dali.

Þá verða tvær stærri útgáfur af Kindle Fire settar á markað síðar í haust, en þær verða með 8,9 tommu skjá. Þær eru me sömu nýju tækninni og minni útgáfan, en með meira geymsluminni. Önnur þeirra verður einnig með 4G tengingu.

Amazon er einnig að auka þjónustuna, sem hægt er að fá í gegnum Kindle Fire tölvurnar. Foreldrar munu nú geta skammtað börnum sínum tíma í tölvunum og getur skömmtunin verið mismunandi eftir því hvernig tölvan er notuð. T.d. er hægt að takmarka tímann í tölvuleikjum við eina klukkustund, en tíma í bókalestur við fjórar klukkustundir. Kindle hefur lengi haldið utan um það hvar notandi er staddur í bók, sem verið er að lesa á nokkrum tækjum. Þessi samtenging mun núna halda utan um hvar notandinn er staddur í hljóðbók. Þegar hann vill halda áfram með bókina á lesformi mun hann byrja þar sem hann hætti að hlusta.

Stikkorð: Kindle Fire  • Amazon