*

Bílar 9. desember 2015

Ný kynslóð Lexus RX

Alls hefur Lexus selt 2,2 milljón RX jeppa síðan 1998, en hann er mikilvægasti bíll japanska lúxusbílaframleiðandans.

Lexus hefur kynnt fjórðu kynslóðina af flaggskipinu í jeppalínu sinni, hinn stóra og stæðilega lúxusjeppa RX. Bíllinn var kynntur fyrir bílablaðamönnum í Lissabon í Portúgal á dögunum.  

Alls hefur Lexus selt 2,2 milljón RX jeppa síðan bíllinn kom fyrst á markað árið 1998. RX er mikilvægasti bíll japanska lúxusbílaframleiðandans og þar á bæ gera menn sér vonir um áframhaldandi gott gengi þessa stærsta bíls framleiðandans.

Lexus RX kemur í nokkrum útfærslum en 450h verður án efa langvinsælasta gerðin eins og verið hefur hingað til. Jeppinn hefur fengið kraftalegri og sportlegri línur og hönnunin minnir svolítið á minni bróðirinn NX, þá sérstaklega framendinn og grillið sem er að verða ættareinkenni Lexus bíla um þessar mundir. Bíllinn er vel búinn þægindum og lúxus eins og Lexus er von og vísa.

Nýr RX 450h er með 3,5 lítra V6 Hybrid vél sem er bæði bensín og rafmagn. Tvinnvélin skilar jeppanum 262 hestöflum og togið er 335 Nm. Jeppinn er 7,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 200 km/klst.

Eyðslan er frá 5,2 lítrum á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Nýr Lexus RX verður kynntur hér á landi í byrjun janúar 2016.

Stikkorð: Bílar  • Lexus  • RXh