*

Tölvur & tækni 15. febrúar 2013

Ný Playstation tölva kynnt í næstu viku

Sony þarf nauðsynlega á því að halda að nýja leikjatölvan slái í gegn, en leikjahegðun fólks hefur breyst.

Nær öruggt er talið að Sony muni kynna nýja Playstation leikjatölvu í næstu viku, en nýjasta útgáfan af vélinni, Playstation 3, kom út árið 2006 og er því nokkuð komin til ára sinna.

Í umfjöllun Bloomberg um fjárhagslega stöðu Sony segir að Sony þurfi bráðnauðsynlega á því að halda að þessi nýja leikjatölva slái í gegn. Sjónvarpsframleiðsludeild fyrirtækisins hefur ekki skilað hagnaði síðan árið 2004 og Kazuo Hirai, forstjóri Sony, var skipaður í starfið m.a. vegna þess hve vel honum gekk þegar hann var yfir leikjatölvudeildinni.

Bloomberg dregur hins vegar í efa að Playstation 4 - ef gengið er út frá því að nýja tölvan hljóti það nafn - verði eins vinsæl og forverinn. Leikjahegðun almennings hafi breyst og sífellt fleiri leiki sér á snjallsíma og spjaldtölvur. Það gæti sett spurningarmerki við framtíð sígildra leikjatölva eins og Playstation, Nintendo og Xbox.

Þá hefur það ekki vakið hrifningu tölvuleikjaunnenda að samkvæmt fréttum munu nýju tölvurnar frá Microsoft og Sony koma í veg fyrir að vinir geti lánað hver öðrum leiki eða að fólk selji notaða leiki. 

Stikkorð: Sony  • Playstation