*

Veiði 14. júlí 2015

Nýr samningur SVFR um Haukadalsá til 2020

Stangaveiðifélag Reykjavíkur gerði áður skammtímasamning um Haukadalsá fyrir veiðisumarið sem nú er að líða.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur og Veiðifélag Haukadalsár skrifuðu undir nýjan samning um leigu á veiðirétti í Haukadalsá í Dölum í hádeginu í dag. Samningurinn er til langs tíma og gildir út sumarið 2020. Skrifað var undir samninginn á skrifstofu SVFR á bökkum Elliðaánna og að því búnu lýstu fulltrúar stjórna félaganna yfir ánægju með áfangann og sögðust hlakka til samstarfsins á komandi árum.

SVFR gerði áður skammtímasamning um ána í desember 2014 fyrir veiðisumarið sem nú er að líða.

Langtímameðaltal Haukdalsárinnar er 695 laxar á stangirnar fimm. Það þýðir meðalveiði upp á 1,54 laxa á stangardag sem setur ána á stall með fremstu ám landsins. Frá því að skipulagðar skráningar hófust hefur áin mest farið í 1.232 laxa en minnst í 184 laxa. Á síðastliðnum árum hefur Haukan í þrígang farið yfir 1000 laxa, árin 2008, 2009 og 2010.

Stikkorð: SVFR  • Haukadalsá