*

Menning & listir 30. september 2013

Nýr sjóður sem styður við útflutning á íslenskri hönnun

Nýr hönnunarsjóður sem hefur starfsemi í dag ræður yfir 45 milljónum króna.

Nýr hönnunarsjóður hefur starfsemi í dag. Hann hefur yfir að ráða 45 milljónum króna á fjárlögum þessa árs. Mennta- og menningamálaráðuneytið stofnaði sjóðinn í febrúar síðastliðnum. Sjóðurinn hefur undir ráðuneytið en Hönnunarmiðstöð Íslands fer með umsýslu hans.

Fram kemur í tilkynningu að hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Hann styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðla á að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Við úthlutun úr sjóðnum verður lögð áhersla á fjóra flokka: þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki. Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra.

Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn Hönnunarsjóðs skipa: Ólafur Mathiesen formaður, skipaður án tilnefningar, Íva Rut Viðarsdóttir varaformaður, Ástþór Helgason og Haukur Már Hauksson, öll tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands, ásamt Helgu Haraldsdóttur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.