*

Matur og vín 11. nóvember 2012

Ný uppskera í Búrgúndí

Væntanlegur 2011-árgangur lofar góðu samkvæmt viðmælendum Viðskiptablaðsins.

Í október hófu vínbændur í Búrgúndí berjatínslu sem jafnan er taugatrekkjandi tími. Frá því að tínsla hefst liggur mikið á að koma öllu í hús.

Reyndar kemur stundum fyrir að tínslu sé frestað eða flýtt um nokkra daga ef berin hafa t.d. ekki náð nægjanlegum þroska. Markmið vínframleiðenda er að ná réttum þroska í tannínum sem eru í hýði berjanna, rétt sykurmagn, sem segja má að gefi ávaxtabragð, auk hæfilegs sýrustigs sem gefur vínum ferskleika. Ef allt þrennt fer saman er talað um að vín séu í góðu jafnvægi.

Rigning getur sett strik í reikninginn þar sem vínviðurinn skilar aukinni vætu í berin og afurð þeirra þynnist út. Við slíkar aðstæður þarf oft að færa stóran hluta af vínum niður um gæðaflokk og selja stóran hluta framleiðslunnar á hrakvirði til framleiðenda fernuvína.

Stefnir í góðan 2011-árgang

Vín og vindlar voru að sjálfsögðu á staðnum til að færa lesendum Viðskiptablaðsins fyrstu fréttir um væntanlegan árgang ásamt því hvernig bruggun á 2011 árganginum gangi, sem er nú á lokastigi. Viðmælendur voru flestir á einu máli um að 2010 árgangurinn verði afar langlífur árgangur og einn sá allra besti í sögunni þó uppskeran hafi verið afar rýr (40% minni en í meðalári). Allt stefni sömuleiðis í mjög góðan árgang 2011 sem sumir telja að muni líkjast 2009 og 2010.